„Stórurðin á sérstakan stað í hjarta mínu“

Umfjöllun Fréttablaðsins í morgun með ljósmyndum Sigtryggs Ara Jóhannssonar um Stórurð hefur vakið mikla athygli. Greinin markar upphaf greinaflokks Sigtryggs og Tómasar Guðbjartssonar um sérstæðar perlur í íslenskri náttúru og þeir hafi viljað byrja á að hvetja göngufólk til að fara austur.

„Stórurðin á sérstakan stað í hjarta mínu. Ég hef tengsl á Úthéraðið og hef verið mikið fyrir austan. Á Dyrfjallasvæðið hef ég einkum sótt á hreindýraveiðar.

Okkur langaði að byrja greinaflokkinn okkar þarna. Okkur fannst svæðið spennandi þótt það væri langt frá höfuðborginni og langaði að æsa fólk í að kíkja austur,“ segir Sigtryggur Ari.

Ljósmyndirnar eru úr ferð sem þeir félagar fóru, ásamt fleirum síðasta haust. „Við fórum flotta ferð síðasta haust þar sem við klifum Dyrfjöll og fleiri fjöll. Síðasta daginn fórum við í Stórurðina. Ég naut þess að hafa verið í Dyrfjöllum helgina á undan með Skúla Júlíussyni, helsta sérfræðingi landsins í Dyrfjöllum og Stórurð,“ segir Sigtryggur Ari.

Fyrirhugað er að heilsíða eftir hann og Tómas um íslenskar náttúruperlur birtist í Fréttablaðinu hvern fimmtudag, auk meira efnis á vef blaðsins.

„Hugmyndin var að kynna til leiks fáfarnari staði sem séu frekar aðgengilegir. Það er nóg af þeim til á landinu. Við erum ekki búnir að ákveða hvað við birtum næst en við höfum viðað að okkur efni í allt að eitt og hálft ár.

Ég hef fengið góð viðbrögð við greininni. Ég hef varann á mér með að birta margar myndir, ég vil frekar hafa þær færri og betri – en ég held að þessar síður þoli vel dagsins ljós.“

Úr Stóruð. Mynd: Sigtryggur Ari Jóhannsson


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar