Stofna annan Ladies Circle klúbb á Egilsstöðum

Kynningarfundur og væntanlega um leið stofnfundur nýs félags innan Ladies Circle hreyfingarinnar hérlendis verður haldinn á Egilsstöðum í kvöld. Mikill áhugi hefur orðið til þess að biðlisti er inn í núverandi klúbb sem stofnaður var árið 2009. Stofnfélagi segir klúbbinn vera góða leið fyrir konur til að efla sitt tengslanet.

„Ladies Circle eru alþjóðleg samtök kvenna á aldrinum 18-45 ára. Þau sinna góðgerðamálum en fyrst og fremst því að konur efli sig og sitt tengslanet. Þar gefst konum tækifæri á að kynnast hver annarri í sínu nærumhverfi, á landsvísu og jafnvel í alþjóðlegu umhverfi,“ segir Sigríður Fanney Guðjónsdóttir.

Hún var meðal þeirra sem tóku þátt í að stofna Ladies Circle klúbbinn á Egilsstöðum. Það var tíundi klúbburinn hérlendis en klúbbarnir fá nafn eftir því hvar þeir eru í röðinni en vísað er til núverandi félags á Egilsstöðum sem LC 10. Í Fjarðabyggð starfar LC 14 og með nýja félaginu verða klúbbarnir orðnir tæplega 20.

„Innan Ladies Circle er áhersla á ákveðna nánd og því er íslenska viðmiðið að ekki séu mikið fleiri en 20 konur í hverjum klúbbi. Staðan er orðin sú áhuginn er það mikill að tímabært er orðið að stofna annan klúbb á Egilsstöðum. Við viljum gefa fleiri konum kost á að njóta töfra hreyfingarinnar og til þess stofnum við nýjan klúbb frekar en búa til biðlista,“ segir Sigríður Fanney.

Eflir tengslanet kvenna


Aðdragandinn að stofnum LC 10 var sá að framundan var landsfundur Round Table, systursamtaka Ladies Circle á heimsvísu, á Egilsstöðum. Round Table hafði löngum verið öflugt á Egilsstöðum og var þarna að fagna 20 ára afmæli sínu. Þá var tækifærið nýtt til að stofna Ladies Circle. Það var gert í janúar og landsfundurinn með sameiginlegri árshátíð beggja hreyfinga haldin í maí.

Miðað er við að Ladies Circle klúbburinn hittist mánaðarlega yfir vetrartímann. „Þetta er gott tækifæri til að komast betur inn í samfélagið og þau geta orðið mun fleiri ef félagar kjósa. Hér á landi eru konur sem hafa ferðast um allan heim á vegum hreyfingarinnar.

Þátttaka í félaginu hefur eflt mig persónulega. Það er stöðugt stefnt að því að fara út fyrir þægindarammann, þótt hver geti haft áhrif á hve langt. Ég hef kynnst konum í bæði mínu nærumhverfi og víðar sem ég hefði annars ekki kynnst.

Á þessu tímabili flutti ég eitt ár á Akureyri og þar gekk ég beint inn í Ladies Circle klúbb þannig ég komst hraðar inn í samfélagið þar. Síðan veitir þetta kærkomin og verðskulduð mömmufrí hér og þar auk gleðskapar víða um land. Ladies Circle getur því breytt lífi þínu jafn mikið og þú vilt.“

Framundan er síðan stórviðburður á vegum landshreyfingarinnar á Egilsstöðum. „LC 10 heldur fulltrúaráðsfund hreyfingarinnar hérlendis í október. Það er búist við fjölda kvenna í bæinn þá og nýi klúbburinn yrði gestur þess fundar.“

Kynningin í kvöld hefst klukkan 20:00 í Þingmúla í Valaskjálf.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.