„Stelpur geta líka skotið“

Tæplega 30 konur mættu á kynningarkvöld á svæði Skotfélags Austurlands (Skaust) í Eyvindarárdal í síðustu viku. Kvöldið fór fram úr björtustu vonum skipuleggjenda. Hugur er því í hópnum til að standa fyrir fleiri viðburðum svo að konur haldi áfram að hittast og skjóta úr byssum.

„Aðalmarkmiðið með kvöldinu var að fá fleiri konur til að vera með. Ég er búin að vera sú eina á þremur skotmótum í sumar og fannst vanta fleiri,“ segir Ingibjörg Ásta Ingvarsdóttir. Hún hafði frumkvæði að kvöldinu ásamt manni sínum, Adam Eið Óttarssyni.

Þau leituðu eftir konu til að leiðbeina og úr varð að Dagný Hinriksdóttir úr Skotfélagi Reykjavíkur kom austur. „Ég sótti hana í flug og við fórum beint upp á svæði að setja saman byssur. Hingað mættu síðan 26 konur í viðbót. Ég hefði verið glöð með tíu. Við vildum leyfa þeim að skjóta því stelpur geta líka skotið.“

Gaman að finna framfarirnar

Ingibjörg segist hafa byrjað í skotíþróttunum að áeggjan Adams. Hún hafi fyrst farið með honum á skotsvæðið í fyrrasumar og þá viljað mæta með honum áður en það opnaði þann daginn til að geta skotið án þess að aðrir sæju. Hún fór síðan að stunda svæðið fyrir um einum og hálfum mánuði.

„Mér finnst útiveran geggjuð en síðan þegar maður finnur framfarir og er farinn að hitta 5-10 dúfur í röð vill maður bæta sig enn meira,“ svarar Ingibjörg aðspurð um hvað heilli hana við skotíþróttina.

Strákarnir hjálpsamir

Skotfimi hefur yfirleitt verið mun meira stunduð af körlum en Ingibjörg segir vel hafa verið tekið á móti henni hjá Skaust. „Ég var feimin að koma fyrst því ég var hrædd um að strákarnir yrðu með dólg. Þeir hafa hins vegar ekki verið neitt annað en hjálpsamir,“ segir Ingibjörg Ásta og bendir á að karlar og konur geti keppt á jafnréttisgrundvelli því skotfimi snúist um tækni, ekki líkamlegan styrk. „Ef þú getur haldið rétt á byssunni, miðað og hitt dúfuna þá ertu góð.“

Ekki þarf skotvopnaleyfi til að skjóta á skotsvæði. Viðkomandi þarf hins vegar að vera orðinn minnst 16 ára og í fylgd með einhverjum með leyfi. Hægt er að fá lánaðar byssur á svæðinu. „Það verður að hafa í huga að byssur eru ekki eingöngu til skotveiða, heldur líka skotfimi. Það er mér ekki efst í huga að drepa dýr, mér finnst gaman að skjóta á og hitta leirdúfurnar,“ segir Ingibjörg.

Fleiri kvöld fyrir konur

Hún segir viðbrögðin eftir kvennakvöldið hafa verið mjög jákvæð. Hún hafi fengið fyrirspurnir um fleiri viðburði. Næsta skotvopnanámskeið verður á Reyðarfirði í september á vegum Umhverfisstofnunar. Eins hafi nokkrar konur spurt hvenær hún fari næst á svæðið til að geta farið með henni.

Svæðið í Eyvindarárdal er opið alla daga frá vori til hausts frá klukkan 18-21 á mánudögum og fimmtudögum. Félagar í Skaust skiptast á að vera á vakt. Ingibjörg segir að til að viðhalda áhuganum eftir kvennakvöldið sé til skoðunar að hafa fasta æfingatíma fyrir konur. Þá sé til skoðunar að fá aftur þjálfara og standa fyrir öðru kvennakvöldi næsta sumar.

Ingibjörg Ásta sér líka fleiri tækifæri á næstunni. „Núna fer gæsaveiðitímabilið að byrja og þá fara strákarnir á veiðar. Við ræddum það að ein okkar gæti tekið að sér barnapössun í félagsheimilinu meðan hinar væru úti að skjóta.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.