Steinar Gunnarsson Austfirðingur ársins 2018

Steinar Gunnarsson, lögreglufulltrúi á Sauðárkróki, er Austfirðingur ársins að mati lesenda Austurgluggans/Austurfréttar. Steinar, sem er uppalinn Norðfirðingur, gaf lögreglunni á Austurlandi fíkniefnaleitarhundinn Byl í fyrra.

„Ástæðan fyrir gjöfinni er að ég hef miklar taugar austur. Þar eru mínar heimaslóðir og ég er alinn upp í lögreglunni þar,“ segir Steinar.

Bylur er labrador á þriðja ári, undan tík í eigu Steinars og Winkel, hundi Fangelsismálastofnunar. Bylur rekur ættir sínar til vinnuhunda langt aftur í ættir og sýndi snemma hæfileika. Hann er alinn upp af Steinari og fjölskyldu en var einnig þjálfaður í fangelsinu á Litla-Hrauni. „Ég byrja fljótt að búa hvolpana undir það sem koma skal. Það kom fljótt í ljós að Bylur væri mjög efnilegur og ég hóf fulla þjálfun þegar hann var 4-5 mánaða.“

Bylur kom austur í nóvember og er í umsjón Snjólaugar Eyrúnar Guðmundsdóttur, lögregluþjóns á Egilsstöðum. „Mér skilst að hann sé þegar farinn að skila árangri og hann og Snjólaug nái vel saman. Það er ekki sjálfgefið, en skiptir miklu máli.“

Fullþjálfaðir fíkniefnaleitarhundar eru metnir á milljónir króna. „Þeir eru býsna dýrir en ég veit að þessum tíma er vel varið. Ég hef mikla trú á lögreglunni á Austurlandi og svona viðbót gerir hana enn betri.“

Kynntist hundum í sveitinni

Steinar er alinn upp á Norðfirði og starfaði í lögreglunni eystra þar til hann fluttist norður á Sauðárkrók fyrir tæpum tíu árum. Hann starfar í lögreglunni þar auk þess að vera yfirmaður hundaþjálfunar lögreglunnar á landsvísu eftir að lögreglustjóraembættinu á Norðurlandi vestra var falið það hlutverk af dómsmálaráðuneytinu í fyrra.

Steinar segist löngum hafa haft áhuga á hundum en hann byrjaði á að þjálfa björgunarsveitahunda um tvítugt áður en hann færði sig yfir í lögregluhundana. Hann hefur sagt frá því í viðtölum að hundaáhuginn hafi kviknað á Egilsstöðum í Fljótsdal þar sem hann var í sveit sem strákur hjá systkinum ömmu hans.

„Ég gleymi aldrei því sem Guffa [Guðfinna Gunnarsdóttir] sagði við mig um að framtíð mín væri með hundum, ég hefði tengingu við þá. Barnshjartanu þótti vænt um þetta. Hún hirti um hundana og ég var mikið með henni og var mjög hrifinn af þeim.“

Endalaust þakklátur

Kosið var á Austurfrétt á milli ellefu einstaklinga og hópa og varð Steinar hlutskarpastur eftir jafna og tvísýna kosningu. Austfirðingur ársins hefur verið kjörinn árlega síðan 2012. Að launum fékk Steinar viðurkenningarskjal, gjafabréf í gistingu, gjafabréf frá Gistihúsinu á Egilsstöðum og ársáskrift að Austurglugganum.

„Ég átti alls ekki von á þessu. Ég vissi af tilnefningunni og fannst hún eiginlega nægur heiður. Ég er eiginlega í nettu sjokki,“ sagði Steinar þegar honum var tilkynnt um nafnbótina. „Þetta er mikill heiður og ég er endalaust þakklátur.“

Steinar með viðurkenninguna. Mynd: Feykir/Páll Friðriksson


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.