Spilar Bach á Breiðdalsvík

Geirþrúður Anna Guðmundsdóttir, sellóleikari, er á ferð um landið til að leika einleikssvítur Johanns Sebastians Bach. Hún spilar í Gamla kaupfélaginu á Breiðdalsvík á þjóðhátíðardaginn, 17. júní.

Geirþrúður er nýútskrifuð úr meistaranámi við Juilliard skóla í New York. Hún lagði einnig stund á sellónám við Tónlistarskólann í Reykjavík og við Northwestern University í Chicago.

Hún hefur komið víða við sem sellóleikari, haldið tónleika í Frakklandi, Hollandi, Danmörku og víðsvegar í Bandaríkjunum, og hefur komið fram sem einleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands og Sinfóníuhljómsveit unga fólksins. Þá er hún meðlimur Kammersveitarinnar Elju.

Hún leikur á tónleikunum allar sex einleikssvítur Johanns Sebatians Bach. Í tilkynningu frá henni er sellósvítum Bach lýst sem „perlum sellóbókmenntanna og meðal dáðustu verka klassískra tónbókmennta.

„Í þessari sex þátta óperu fyrir einleiksselló, þar sem hver þáttur ber sinn eigin brag, tóntegund, og sérstæðu, tekur Bach flytjanda sem og hlustendur í ótrúlegt ferðalag. Þetta ferðalag hefst með fyrsta einfalda þríhljóminum, sem skapar hljóðheim fyrstu svítunnar, og liggur svo í gegnum innhverfu aðra svítuna, opinskáu þriðju svítuna, spámannslegu fjórðu svítuna, tregafullu og dramatísku fimmtu svítuna, og loks, hetjulegu og sigurglöðu sjöttu svítuna.“

Tónleikarnir hefjast klukkan 17:00 og er aðgangur að þeim ókeypis.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.