Spenna í loftinu og ótti um framtíðina

Mikil spenna og jafnvel kvíðir ríkir meðal Bandaríkjamanna fyrir forsetakosningar í landinu í dag, segir Austfirðingur sem býr í Chicago um þessar mundir. Að vera þar nú hefur opnað augu hans fyrir hve mikið er í húfi fyrir marga.

„Það er mjög mikill áhugi á kosningunum, jafnvel óvenju mikill fyrir Bandaríkjamenn. Síðan er það þessi spenna sem maður finnur,“ segir Þorgeir Arason, sóknarprestur í Egilsstaðaprestakalli.

Þorgeir er hins vegar ekki á Egilsstöðum um þessar mundir heldur í námsleyfi með fjölskyldu sinni í Chicago í Bandaríkjunum. Þar stundar hann framhaldsnámi í helgisiðafræðum í Lutheran School of Theology. „Þetta er nám með áherslu á helgihald og helgisiði, ætlað prestum eða safnaðarleiðtogum með reynslu,“ segir hann.

Þorgeir, kona hans Hlín Stefánsdóttir og börn þeirra þrjú búa á stúdentagörðum skammt frá skólanum. Vegna Covid-19 veirunnar er þó skólastarfið óhefðbundið. „Það er sérstakt að sitja á stúdentagörðunum í nokkur hundruð metra fjarlægð frá kennslustofunni. Námið fer mest fram í gegnum netið en við getum hitt kennarana maður á mann. Upp á aðgengi að bókum er líka gott að vera hér.“

Erfið bið eftir leyfi

Faraldurinn gerir lífið óneitanlega sérstakt og Þorgeir segir að vinir fjölskyldunnar hafi verið undrandi á þeim að fara á þessum tíma. Þau hafi hins vegar verið sammála um að þetta væri einstakt tækifæri.

„Ég komst upphaflega inn í námið fyrir ári en fékk þá ekki námsleyfi. Ég var snemma á árinu farinn að gera ráðstafanir til að fara en síðan tók við mikil rússíbanareið um hvernig hlutirnir æxluðust út frá veiru og landvistarleyfi. Landið var lokað á tímabili en um miðjan júlí var farið að gefa út vegabréfsáritanir fyrir námsmenn. Þá ákváðum við að stökkva því við vissum ekki hvort þetta tækifæri kæmi aftur.“

Fjölskyldan fór utan um miðjan ágúst. „Það er gott að vera hér þótt lífið sé sérstakt. Það eru miklar takmarkanir en samt ýmislegt hægt að gera, til dæmis fara í dýragarðinn. Það er líka ákveðið ævintýri að vera hér á þessum tímum.“

Í vígi Demókrata

Í huga Þorgeirs er líka ævintýri að vera í landinu í dag þegar landsmenn kjósa um hvort Repúblikaninn Donald Trump verði áfram forseti eða hvort áskorandanum, Demókratanum Joe Biden, takist að velta honum úr sessi. „Það tala margir um að þessar kosningar séu sögulegar fyrir margra hluta sakir. Í sjónvarpsfréttunum á sunnudagskvöld var talað við 104 ára gamla konu í New York sem kosið hefur í öllum kosningum frá 1936 og hún sagði að þessar væri án alls vafa þær sögulegustu. Ég held að hún lýsi hugarfari margra.“

Spennan er reyndar ekki mikil í næsta nágrenni við Þorgeir enda Chicago alræmt vígi Demókrata. Barack Obama átti sinn pólitíska feril í borginni áður en hann varð forseti.

„Hann á hús í næsta hverfi. Við erum búin að labba framhjá því. Það er vandlega afgirt með skilaboðum um að ef þú farir inn á svæðið lendirðu í vandræðum gagnvart öryggisþjónustunni. Ég held að hann sé samt mest í Washington.

Við búum í hverfi sem heitir Hyde Park og þar fékk Hillary Clinton 90% atkvæða fyrir fjórum árum. Myndin sem við fáum hér er mjög einsleit. Margir eru með skilti í görðunum hjá sér en ég hef ekki séð eitt einasta tileinkað Trump. Þetta á þó fyrst og fremst við borgina því blöndunin er meiri utan hennar.“

Tvö barna þeirra eru á grunnskólaaldri og hefur sú elsta fengið smávægilega fræðslu um bandarísk stjórnmál. „Hún er í fjórða bekk og kennarinn hefur síðustu vikuna farið aðeins yfir kosningabaráttuna og áherslur. Kennarinn lét krakkana sverja að segja ekki frá hvað foreldrar þeirra myndu kjósa, trúlega helst vegna hættu á að ef einhver kæmi fram frá Trump-heimili yrði viðkomandi fyrir aðkasti. Þar var samt einn sem smellti „Ég hata Trump“ skilti fyrir framan tölvuna. Það lýsir þessari sterku skiptingu sem skapar spennu.“

Óvild og ótti

Þótt Þorgeir og fjölskylda séu í einsleitu umhverfi skynja þau samt vel andrúmsloftið fyrir kosningarnar í dag. „Það sem hefur einkennt kosningabaráttuna er þessi ofboðslega mikla barátta, mér liggur við að segja óvild milli fylkinga og ótti við hvað gerist,“ segir hann.

„Ég horfði á fyrstu kappræðurnar þar sem Trump neitaði að fordæma hvíta öfgahópa. Daginn eftir var ég í tíma þar sem rætt var um samfélagsmálin. Einn samnemenda minna er maður um sextugt, djákni frá Texas. Hann er hvítur en á tengdason sem er blökkumaður þar sem leiðandi barnabörn sem eru svört á hörund. Í miðjum umræðunum brestur hann í grát og fer að lýsa raunverulegum ótta af framtíð barnabarnanna ef Trump verður endurkjörinn. Þá áttaði ég mig hve mikið er í húfi fyrir marga.“

Stolt af kosningaréttinum

Þetta kyndir undir kjörsókn sem varð sums staðar jafn mikil utankjörfundar nú og hún var í heildina fyrir fjórum árum. „Ég sá myndband hjá skólasystur minni sem þurfti að fara til Ohio. Í því voru 2-3 mínútur þar sem hún keyrði framhjá biðröð á kjörstað. Það var ótrúlegt að sjá þennan mannfjölda sem stóð í biðröð.

Við sem búum í litlum bæ á Íslandi verðum óþolinmóð ef við þurfum að bíða í fimm mínútur og við þurfum ekki að skrá okkur sérstaklega til að kjósa, fæst að taka frí í vinnunni eða hafa áhyggjur af öryggi á kjörstað. Það er sérstakt að bera þetta saman við það sem við tökum sem sjálfsögðum hlutum en eru það ekki. Fólk er stolt fyrir því að fara til að kjósa, kannski sérstaklega nú þegar það finnur að atkvæði þess skiptir máli.“

Þorgeir segir viðbrögð Trump við Covid-19 faraldrinum hafa verði helsta umræðuefni kosningabaráttunnar en einnig hafi mikið verið rætt um kynþáttamisrétti. Málefnin eru skyld. „Þeir sem eru svartir á hörund hafa frekar misst vinnuna og hafa verri aðgang að heilbrigðisþjónustu.“

Forsetinn hefur róið eftir atkvæðum kristinna og vísað til trúarinnar í ræðum sínum. Þorgeir segir kristna Bandaríkjamenn síður en svo einsleitinn hóp sem fylki sér að baki Trump þess vegna.

„Við fáum stundum þá mynd heima á Íslandi að kristið fólk í Bandaríkjunum sé afar íhaldssamt og styðji Trump en staðreyndin er að það er stór og fjölbreyttur hópur. Trump hefur talað til þeirra bókstafssinnuðu í suðurríkjunum en það er mikill munur milli þeirra og lútherstrúarfólk í norðurríkjunum.“

Strax byrjað að undirbúa mótmæli

Talning atkvæða er þegar hafin á sumum stöðum, jafnvel lokið. Ekki er samt tryggt að úrslit fáist í nótt. Utankjörfundaratkvæðin flækir málin og fara þarf varlegar ef kosningin verður jöfn. Almennt er talið að Biden eigi frekar inni atkvæði í utankjörfundaratkvæðagreiðslunni, því Demókratar óttist frekar veiruna og hafi því kosið fyrr, meðal stuðningsmenn Trump fari frekar á kjörstað. Síðarnefndu atkvæðin verða talin fyrst og því gætu fyrstu tölur orðið forsetanum í hag.

Sögur eru á kreiki um að hann sé reiðubúinn að lýsa yfir sigri á grundvelli þeirra og vefengja seinni úrslit. „Það eru margir óvissuþættir, til dæmis um hvort atkvæði send í pósti verði tekin gild. Þetta bætir enn á kvíðann.

Það er strax farið að skipuleggja fjöldafundi ef hann virðir ekki úrslitin. Það er búið að boða að fólk safnist saman eftir hádegi á morgun til að gera skilti um að verja kosningarnar hérna í garðinum hjá mér og fara svo með þau niður í bæ,“ segir Þorgeir.

Fréttir hafa borist af fólki sem birgir sig upp af skotvopnum til að verja sig í mögulegum átökum eftir kjördag, eða svæðum, til dæmis háskólum, sem eru tilbúin að loka sig af ef til óeirða kemur. Þorgeiri er ekki kunnugt um slíkar ráðstafanir í Chicago. „Ég hef ekki heyrt þessa umræðu hér en það er mikil spenna og jafnvel vanlíðan hjá mörgum. Skólinn hefur hvatt nemendur til að leita sálgæslu ef þeir finna fyrir kvíða og streitu vegna úrslitanna.“

Brennd af fortíðinni

Skoðanakannanir sýna Biden með rúmt forskot á landsvísu, en það segir ekki alla söguna því atkvæðavægi er misjafnt milli ríkja og í ákveðnum úrslitaríkjum er munurinn vel innan skekkjumarka. Margir eru minnugir úrslitanna fyrir fjórum árum sem gengu þvert gegn flestum könnunum.

„Myndin sem ég hef í kringum mig er einföld. Hér er fólk sem vill breytingar, jafnvel róttækar og óttast um framtíðina undir stjórn Trump. Það vonar það besta en þorir varla að treysta könnunum. Ég er ekki sérfræðingur í bandarískum stjórnmálum þótt ég fylgist með þeim. Ef ég á að spá einhverju þá er það að Biden sigri en munurinn milli þeirra verði minni en kannanirnar sýna.“

Fjölskyldan í Willis-turninum í Chicago.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.