Söngstund í Egilsstaðakirkju í kvöld

Opin söngstund verður í Egilsstaðakirkju fyrir almenning í kvöld. Ef vel viðrar munu söngvarar fara um bæinn til að gleðja fólk. Á Seyðisfirði verður gengin friðarganga.

„Það eru býsna mörg ár síðan okkar fyrrum organisti, Torvald Gjerde, byrjaði með þá hefð að vera með opna kirkju þar sem hann og kórinn héldu jólatónleika við kertaljós á milli klukkan 10 og 11 að kvöldi Þorláksmessu.

Við höldum þessari hefð áfram, fólk getur komið og farið að vild, hlustað á hátíðartóna í notalegri jólastemmingu,“ segir Þorgeir Arason, sóknarprestur í Egilsstaðaprestakalli.

Í sumar kom nýr organisti, Ungverjinn Sándor Kerekes og honum fylgja nýjar hefðir. „Kórinn og nýr stjórnandi hafa ákveðið að boða til söngstundar fyrir þau sem vilja taka þátt í að syngja en ekki bara hlusta.“

Söngstundum hefst klukkan 18:00 og er reiknað með að hún standi í um hálftíma. Ef veður leyfir þá verður hún aðeins upphitun því eftir stendur til að fara um bæinn og syngja á völdum stöðum.

„Í Ungverjalandi og víðar í Austur-Evrópu er rík hefð fyrir að ganga um nærsamfélagið og syngja. Sandor þekkir hana vel og vill gjarnan taka hana upp hér. Ég á von á að því verði vel tekið, við erum vön að taka upp ýmsa siði frá öðrum löndum. Þetta er hugsað til að gleðja fólk á ferðinni í ys og þys en líka þá sem til dæmis eru einir heima,“ segir Þorgeir.

Á Seyðisfirði leggur árleg friðarganga af stað frá kirkjunni klukkan 17:00. Gengið er með kyndla hring í bænum og endað framan við Hótel Ölduna. Þar flytur Guðrún Ásta Tryggvadóttir friðarhugvekju, sungnir verða söngvar og að lokum boðið upp á léttar veitingar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.