Orkumálinn 2024

Sögufrægur Ferguson á Bustarfell

Ferguson dráttuvél, sem kom við sögu í fjöldamörgum húsbyggingum á Vopnafirði, var afhent Minjasafninu á Bustarfelli á föstudag.

Dráttarvélin kemur frá Krossavík 1 í Vopnafirði og var keypt þangað árið 1949. Hún var afhent Ferguson-félaginu fyrir tveimur árum sem gerði hana upp og afhenti safninu.

Sigurður Björnsson frá Krossavík rifjaði upp að búskaparhættir þar hefðu breyst mikið þegar faðir hans, Björn Sigmarsson, keypti vélina. Henni fylgdi sláttuvél og skúffa á lyftu en slegið var með vélinni í Krossavík fram undir 1970.

Þá fékk hún nýtt hlutverk. Sigurður var að byggja sér hús og fékk vélina til að flytja aðföng. Æxlaðist það þannig að hann fór fljótt að flytja timbur og sement fyrir aðra auk þess sem hann ferðaðist með stóra steypuhrærivél. Þannig kom Fergusoninn að einum 20 húsbyggingum í Vopnafirði.

Þá rifjaði Sigurður upp að á vélinni hefði verið pallur sem fólk hefði verið flutt á. Þegar afasystur hans komu í heimsókn voru þrír hægindastólar settir á pallinn.

Vélin var gangsett og sleginn með henni lítill blettur á föstudaginn. Eyþór Bragi Bragason, safnstjóri á Bustarfelli, segir vélina auka safnkost og fjölbreytileika því loks sé hægt að hafa dráttarvél til sýnis við bæinn en langafi hans, Metúsalem Metúsalemsson, hafi átt slíka vél og notað þar. „Þessar vélar voru mikil bylting í sveitunum og stór hluti af íslenskri búskaparsögu,“ segir Eyþór.

Hann segir vélina virka eins og hún sé ný. Til stendur að gangsetja hana við valin tilefni, svo sem á Bustarfellsdaginn sem að þessu sinni verður sunnudaginn 4. júlí.

Andrés Valgarð Björnsson reynsluekur Ferguson-inum. Mynd: Minjasafnið Bustarfelli


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.