Orkumálinn 2024

Söfnuðu 650 þúsund krónum til geðheilbrigðisþjónustu á Austurlandi

Heilbrigðisstofnun Austurlands voru nýverið afhentar 650 þúsund krónur sem söfnuðust á styrktartónleikum sem haldnir voru fyrir ári. Upphæðin er eyrnamerkt geðheilbrigðisþjónustu.

Bjarni Þór Haraldsson fór fyrir rokktónleikunum í Valaskjálf ásamt ungu austfirsku tónlistarfólki. Þetta var í annað skiptið sem slíkir tónleikar voru haldnir og voru þeir fjölsóttir. Hinir þriðju í röðinni verða haldnir næsta laugardag.

Nína Hrönn Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands, veitti styrknum viðtöku. Hún segir peningana nýtast vel en ekki síður að hópurinn hafi tekið sig saman og haldið tónleikana til að vekja athygli á málstaðnum.

„Þetta hæfileikaríka unga fólk heldur þessa flottu tónleika og vekur um leið athygli á það samfélagið skiptir máli þegar kemur að geðheilbrigði. Heilbrigðisþjónustan ein lagar ekki geðheilbrigði, heldur gerir samfélagið það með stuðningi fagfólks.

Mér finnst þessi kraftur sem býr í samfélaginu skipta máli, að halda tónleikana og vekja athygli á málstaðnum sem hvorki þeim né okkur finnst hafa fengið nægilega umfjöllun.“

Fjármunirnir eru nýttir til þjálfunar starfsfólk. „Okkur er tamt að gefa tæki og tól en það sem þarf í geðheilbrigðisþjónustuna er oft ósýnileg því þar er þekking sterkasta vopnið.

Við nýttum styrkinn af tónleikunum fyrir tveimur árum til að efla menntun starfsfólks með námskeiðum um kvíða barna. Nú er að fara af stað hópastarf þar sem þessir starfsmenn skila þeirri þekkingu sem þeir öðluðust aftur til samfélagsins.

Við verðum með fræðslu fyrir foreldra um hvernig þeir geti hlúð að börnum sínum áður en einkenni um kvíða verða að sjúkdómi. Það er gaman að geta nýtt gjöfina til að dreifa þekkingunni og aðstoða þannig fleiri.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.