Smyglsögurnar má segja þegar þrjátíu ár eru liðin

Þótt lítið verði um hátíðarhöld á sjómannadeginum á sunnudag út af samkomubanni, er engan bilbug að finna á Sjómannadagsblaði Austurlands. Ritstjóri blaðsins segir blaðaútgáfuna mikilvæga fyrir daginn og til að halda uppi heiðri stéttarinnar.

„Sjómannadagsblöðin eru sameiningartákn hátíðahaldanna. Ef ég veit rétt þá eru þau fjögur á landinu en voru fleiri.

Sjómannadagurinn á vök að verjast víða á Íslandi en hefur haldist sterkur þar sem blöðin koma út. Þar sem blöðin hafa lognast út af hafa hátíðahöldin gert það líka,“ segir Kristján Kristjánsson, ritstjóri Sjómannadagsblaðs Austurlands.

Blaðið kom fyrst út árið 1994 og er því um að ræða 26. árgang. Það er efnismikið, um 90 síður, og meðal í ár er frásögn fjölmiðlamannsins Andra Freys Viðarssonar af hans eina túr á fiskiskipi, björgun sjómanns sem féll frá borði af Jóni Kjartanssyni árið 1987, sögu Hraðfrystihúss Eskifjarðar og því þegar Norðfirðingar keyptu norska síldveiðibátinn Gesinu sem strandaði í Sandvík árið 1966.

„Sjómannadagurinn er dagurinn með stóri D-i fyrir sjómenn og fjölskyldur þeirra. Þetta er dagurinn þar sem allir líta allir upp til sjómanna. Þess vegna reynum við að horfa til fortíðar með efnistök, halda uppi minningu þeirra sem farist hafa á sjó og heiðra sjómannastéttina.“

Útgáfan eins og að vera á vertíð

Gengið er í hús á Austfjörðum og blaðið selt en þeir sem búa utan fjórðungs geta pantað það í gegnum Facebook eða á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.. Kristján segir áhuga á blaðinu hafa aukist ef eitthvað er þann tíma sem það hefur komið út.

„Fólk vill fá heyra um gömlu tímana, hrakningasögurnar, smyglið og allt þetta. Bátarnir lentu í ýmsu, það var annað að fara til útlanda á litlum trébáti en á þessum fljótandi hótelum í dag. Smyglsögurnar má aldrei segja fyrr en eftir 30-40 ár, þá má leysa frá skjóðunni. Það er ein saga og svo er ég byrjaður að vinna eina í næsta blað.“

Þrátt fyrir að undirbúningur fyrir næsta blað hefjist um leið og það síðasta kemur út er alltaf törn síðustu dagana. „Þetta er eins og þegar síldin var að koma í gamla daga, það þarf að bjarga aflanum og koma blaðinu út á réttum tíma. Þetta er svipað þótt vinnan sé öðruvísi og lítið sofið,“ segir Kristján.

Hátíðahöldin að þessu sinni verða með minnsta móti út af samkomubanninu. Sjómannadagskaffi fellur niður víðast hvar en einhverjar sjómannadagsmessur verða, alla veganna á Seyðisfirði, Borgarfirði, Fáskrúðsfirði, Djúpavogi og Vopnafirði. Á Vopnafirði verður sigling klukkan tíu en á Djúpavogi verður hún klukkan tvö, að loknu grilli í tilefni 80 ára afmælis slysavarnadeildarinnar.

„Það eina sem er hefðbundið við þennan sjómannadag nú er blaðaútgáfan. Það er hægt að vera inni að lesa til að koma sér í stemminguna,“ segir Kristján að lokum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.