Smíðaði gítar úr við úr Hallormsstaðarskógi

Fjögur ár eru síðan Norðfirðingurinn Guðmundur Höskuldsson lét gamlan draum rætast og fór til Bandaríkjanna á námskeið í gítarsmíði. Hann er með lítið verkstæði í kjallaranum hjá sér þar sem gerir við og smíðar gítara. Einn slíkan gerði hann úr austfirsku hráefni.

Guðmundur er reyndar uppalinn í Reykjavík og fór að spila á gítar þrettán ára gamall þegar hann komst yfir gítar frá bróður sínum.

„Eldri bróðir minn, Eiríkur, var búinn að fjárfesta í gítar og magnara, Gibson SG og Calsbro 100 watta magnarahaus og stóru boxi. Þetta voru rosalegar rokkgræjur og ég var með glýju í augunum. Eiríkur ákvað einn daginn að flytja til Akureyrar og skildi græjurnar eftir.

Ég fékk leyfi til að nota þær og stofnaði hljómsveit með skólabróður mínum, Gústafi Guðmundssyni, sem spilaði á trommur. Við fengum æfingahúsnæði í kjallara undir bílskúr, þannig að það má segja að við höfum byrjað á botninum,“ segir Guðmundur í viðtali í nýjasta tölublaði Austurgluggans.

Átakanlegt að upplifa skelfinguna í beinni útsendingu

Guðmundur spilaði síðan í ýmsum sveitum áður en hann fékk nóg og seldi græjurnar. Áhuginn á tónlistinni kviknaði aftur þegar hann flutti austur í Neskaupstað árið 1982. Hann leysti meðal annars af hjá Sú Ellen sumarið 1986 en flutti aftur suður eftir erfiða atburði jólin það ár.

„Ég vann hér í Neskaupstað sem loftskeytamaður frá 1981-1983 og af og til næstu árin en var líka á sjónum sem loftskeytamaður, bæði á togurum og frökturum.

Jólin 1986 upplifði ég heldur óskemmtilega atburði. Á aðfangadagskvöld fórst Suðurlandið á hafsvæðinu milli Íslands og Noregs. Fimm komust af en sex fórust. Ég var í sambandi við fyrsta stýrimann í talstöðinni, en hann fór síðastur frá borði. Skipstjórinn var þá farinn fyrir borð, hann fórst.

Það var átakanlegt að upplifa þessa skelfingu í beinni útsendingu, í beinu sambandi við áhöfnina, ef svo má að orði komast. Rétt fyrir miðnætti daginn eftir, á jóladag, barst svo neyðarkall frá breska tankskipinu Synetu, en það strandaði við Skrúðinn, í mynni Fáskrúðsfjarðar. Allir skipverjar fórust.

Þetta var einfaldlega of mikið fyrir mig, ég gat ekki hugsað mér að lenda aftur í einhverju svipuðu og ákvað að skipta um starf. Ég vann þó sem loftskeytamaður í sumarleyfum nokkrum sinnum eftir þetta.“

Næring fyrir sálina

Guðmundur kom aftur austur 20 árum síðar, þá til að vinna í álverinu á Reyðarfirði. Hann hélt sér við í spilamennskunni syðra og hefur síðan spilað eystra með til dæmis Coney Island Babies og Guðmundi R. Gíslasyni.

„Ég spila líka með ýmsu öðru tónlistarfólki hér, ef og þegar ég er beðinn um það, svo sem karlakórnum. Ég hef ennþá gaman af að spila tónlist og ég held að það sé ekki síst að þakka þeirri ákvörðun minni að gerast ekki atvinnutónlistarmaður. Frelsið sem felst í því að spila sér og öðrum til ánægju, án endurgjalds, er næring fyrir sálina.“

Spilar enn á bassa sem fannst á vörubílspalli

Guðmundur segist snemma hafa fengið áhuga á innviðum gítarsins og hvernig hljóðfærið virkaði. Hann hafi því fljótlega farið að breyta þeim gíturum sem hann átti.

„Einn daginn, líklega 1982 hér í Neskaupstað, var mér færður bassi sem Gunnar Þorsteinsson hafði fundið á vörubílspalli á leið á ruslahaugana. Hann var mjög illa farinn, allt járn var ryðgað og lakkið ónýtt.

Ég gerði hann upp, tók lakkið af honum og var með hann ólakkaðan í mörg ár, eða þar til vinur minn sem var að vinna við viðhald á Landspítalanum málaði hann fyrir mig. Ég spilaði mikið á þetta hljóðfæri og á það ennþá.

Ég átti lengi Yamaha gítar sem var alveg eins og ég vildi hafa gítar, það var gott að spila á hann og hann hljómaði vel. Ég lagði honum þegar ég fékk mér nýjan gítar og snerti hann varla í nokkur ár. Þegar ég svo tók hann upp úr töskunni einn daginn virkaði hann ekki og ég náði honum ekki í gamla formið hvernig sem ég reyndi, þannig að ég ákvað að senda hann í viðgerð.

Þegar hann kom þaðan virkaði hann ekki heldur. Sú hugmynd varð því alltaf áleitnari að ég yrði hreinlega að læra gítarsmíði og gítarviðgerðir svo ég gæti séð um mín hljóðfæri sjálfur. Jafnvel smíðað mína eigin gítara.“

Að frá morgni til kvölds í sex mánuði

Það kom að því að Guðmundur og kona hans, Sigrún Víglundsdóttir, voru að fara yfir gamla drauma sem þau vildu láta rætast og fyrir valinu hjá Guðmundi varð að fara á námskeið í Bandaríkjunum. Í mars fór hann í sex mánaða leyfi frá álverinu og hélt vestur um haf.

„Ég var að frá morgni til kvölds flestalla daga þessa sex mánuði. Ég tók öll auka námskeið sem í boði voru, til dæmis magnarasmíði, þar sem ég smíðaði gítarmagnarann sem ég nota í dag. Ég smíðaði fjóra gítara á námskeiðinu, tvo kassagítara, einn archtop jazzgítar með pickup, og einn rafgítar. Þetta eru þeir gítarar sem ég nota í dag og ég þarf ekki aðra.“

Margir spurt hvort ég ætli ekki að hella mér út í gítarsmíðina

Guðmundur hefur gert tilraunir með íslenskan hljóðfæravið og smíðað rafgítar úr harðviði, sem allur er fenginn úr Hallormsstaðaskógi.

„Þetta er spennandi verkefni. Hálsinn á gítarnum er úr birki, búkurinn úr ösp og fingurborðið úr reynivið. Birkið stendur sig mjög vel og hefur ekki haggast og öspin sömuleiðis. Reyniviðurinn í fingurborðinu er hins vegar ekki nógu harður og böndin eru farin að losna.

Ýmir, sonur minn, er að læra gítarsmíði hjá mér og við erum að fara í sameiginlegt verkefni, sem er mjög spennandi og felst í því að gera harðvið ennþá harðari. Við keyptum tæki til að þurrka viðinn og herða. Hann er bakaður við háan hita og síðan er allt súrefni tekið úr honum í vökva í sérstökum tanki með undirþrýstingi. Með þessari aðferð vonumst við til að fá efni sem er nógu hart í fingurborð.

Það hafa margir spurt hvort ég ætli ekki að hella mér út í gítarsmíðina, opna verkstæði og taka hljóðfæri í viðgerð. En það er ekki komið að því ennþá, allavega ekki næstu tvö árin. Ég er með aðstöðu í kjallaranum og smíða og geri við fyrir sjálfan mig og vini mína og held mér þannig í sæmilegri þjálfun. Ég læt það duga í bili, en við sjáum hvað setur.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.