Slökunarpúðinn Friður og ró frá Stöðvarfirði

Solveig Friðriksdóttir á Stöðvarfirði fékk fyrr á þessu ári styrk úr verkefninu Brothættar byggðir til að framleiða augnhvílur, eða slökunarpúðann Frið og ró, eins og hún kallar gripinn.

„Ég er búin að vera að gera púðana í nokkur ár núna og hef verið með þá til sölu á Salthúsmarkaðnum ásamt því að selja vinum og vandamönnum“ segir hún um það hvernig hún hóf sína framleiðslu en Solveig komst fyrst í kynni við svona púða í jógatíma á Akureyri.

Solveig hefur lengi brunnið fyrir því að kenna fólki slökun og vill vekja athygli á því hve slökun er mikilvæg fyrir stoð- og taugakerfi fólks. Hún hefur verið með jógakennslu á Stöðvarfirði í 20 ár.

Hörfræ og lavander


Með tímanum hefur hún þurft að breyta framleiðslu sinni þar sem eftirspurnin hefur aukist verulega. „Ég málaði fyrst silkið sem ég notaði en hef nú einfaldað það aðeins og kaupi efnið tilbúið til notkunar.“

Hún saumar síðan hvern púða, fyllir með hörfræjum og lavander áður en hún lokar þeim. Starfsemina er hún enn sem komið er með eldhúsborðið heima hjá sér en selur þá mest á Salthúsmarkaðinum og heimasíðunni fridurogro.is.

Solveig segir nokkra þætti spila inn í slökunargildi púðanna. Það er ekki bara lavander ilmurinn heldur þyngdin í hörfræjunum. „Það er ákveðin þyngd í hörfræunum og þyngdin sjálf hjálpar við að róa kerfið. Það er sem sagt ekki bara slökun við það að loka á birtuna heldur einnig þyngdin eins og sjá má í vinsældum þyngingarteppa undanfarið.“

Hún telur fólk þó eiga það til að misskilja notkun þeirra. „Margir vilja hita púðana og setja á herðarnar en mér finnst í raun best að kæla þá og setja á augnsvæðið, við föttum oft ekki hve mikil spenna er á því svæði fyrr en við förum að slaka á.“

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.