Skrifar um það sem honum er kærast

„Ég er fyrir löngu búinn að komast að því að ég þrífst ekki án þess að skapa eitthvað,“ segir Héraðsbúinn Stefán Bogi Sveinsson, sem fagnar nú útgáfu sinnar annarrar ljóðabókar sem ber heitið Ópus. Með bókinni fylgir hljóðdiskur þar sem höfundur les upp við undirleik Jónasar Sigurðssonar og Ómars Guðjónssonar.


„Ljóðið eru hentugt form því það er svo frjálst og gerir ekki mjög miklar kröfur til höfundarins þannig séð. Ef þú hefur eitthvað að segja getur þú gripið hugsunina eða tilfinninguna og komið henni snöggt á blað. En ljóð geta líka verið svikul fyrirbæri sem verður að varast að lesa of mikið í. Þessi tilfinning eða hugmynd sem ljóðið er að miðla getur hafa varað í fimm mínútur og er síðan horfin en ljóðið stendur eftir sem vitnisburður um hana. Skáld nota slíkar tilfinningar oft sem kveikjur. Segja sögur sem eru ekki alveg sannar í þeim skilningi að þar er sagt frá einhverju sem ekki á sér endilega stað í raun en gæti átt sér stað. En ljóðin sem slík eru jafn sönn fyrir því.“

Skrifar um sjálfan sig
„Ég hef sagt áður að ég skrifi bara um sjálfan mig og það er ekkert öðruvísi með þessa bók. Þetta eru persónuleg ljóð og þau fjalla um það sem mér er kærast og finnst skipta mestu máli í lífinu. En þau fjalla líka um ótta og dauða og það hvernig þetta fléttast allt saman. Eftir því sem þú færð meira út úr lífinu er meira að missa og því fylgir ótti og ógn. Og það sem er svo magnað er að þessi ógn getur líka stafað frá okkur sjálfum. Við erum öll fær um að eyðileggja allar þær góðu gjafir sem við fáum. Svo það má kannski segja að þetta sé ein leið til þess að takast á við þennan ótta. Skrifa hann niður, leyfa öðrum að sjá hann og kannski sýna líka öðrum sem eru að hugsa það sama að þau eru ekki ein í heiminum.“

„Þeir félagar slepptu sér lausum í tónlistinni“
Stefán Bogi segir verkefnið hafa verið nokkuð lengi í þróun. „Upphaflega skrifaði ég stuttan ljóðabálk sem átti að fjalla um líf mitt og hvernig ég upplifði að vera skáld, faðir og eiginmaður. Ég ætlaði mér hins vegar alltaf að gefa út hefðbundna ljóðabók en fékk athugasemdir við handritið þess efnis að efnið skilaði sér ekki að fullu á blaðinu. Það vantaði upplesturinn til að gefa textanum líf. Með það í farteskinu leitaði ég til Jónasar með þá hugmynd að taka þetta upp og láta upplesturinn fylgja. Ég hafði fengið að koma fram á tónleikum með Jónasi áður og við höfðum rætt saman um það hversu magnað er að flétta saman ljóðum og tónlist með þessum hætti. Hann greip hugmyndina á lofti og fékk Ómar Guðjónsson til liðs við okkur. Við fórum síðan þrír saman og lokuðum okkur inni í samkomuhúsinu í Garði. Þeir félagar slepptu sér lausum í tónlistinni og spunnu undirleikinn á staðnum meðan ég las. Það var ótrúlegt að fylgjast með þeim vinna og vera hluti af þessari orku sem varð þarna til þegar þrír listamenn gáfu allt sem þeir áttu í eitt verk. Ég lofa því að útkoman er líka einstök,“ segir Stefán Bogi.

Ljósmynd: KOX

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar