Sjósoðið smælki og hundasúrupestó yfir HM á Flateyri

„Ég kynntist fólkinu sem er að reka veitingastaðinn Vagninn á Flateyri og var þar gestakokkur eina helgi í fyrra. Í sumar báðu þau mig um að koma og vera með sér, leggja upp matseðil og elda á kvöldin. Ég ákvað að láta þetta tækifæri ekki fram hjá mér fara, stökk á vagninn og er hér í allt sumar,“ segir Vopnfirski næringarfræðingurinn Elísabet Reynisdóttir sem stendur kokkavaktina á Vagninum í sumar.


Elísabet, sem bjó á Reyðarfirði í fjögur ár, segist taka austfirska matarmenningu með sér vestur. „Einhvern tíma voru þau Berglind og Sævar á Randulffssjóhúsi á Eskifirði í vandræðum og báðu mig um að kokka. Ég hafði bara aðstoðað á litlum veitingastað en aldrei keyrt eldhús. Ég hjálpaði þeim í nokkra daga og græddi vel á því, skipulagið var gott og svo góðir kokkar sem lögðu upp matseðil, þannig að segja má að ég hafi tekið hraðnámskeið í að vinna í eldhúsi og ég bý svo sannarlega að því núna.“

„Við reynum að sækja í holla og góða næringu“
Elísabet segir að matseðillinn á Vagninum sé tengdur náttúrunni og á því verður svo sannarlega engin breyting kringum heimsmeistarmótið í knattspyrnu, en allir leikir Íslands verða sýndir á Vagninum.

„Við reynum að sækja í holla og góða næringu og við ætlum að bjóða upp á smárétti í kringum HM sem er sjósoðið smælki, borið fram kalt með sterku hundasúrupestói. Einnig ætlum við að bjóða upp á litlar fiskibollur með kerfli. Við vonum að þetta alíslenska og orkumikla snakk slái í gegn og sendi strákunum okkar góða strauma til Rússlands,“ segir Elísabet en bætir því við að auðvitað sé hægt að panta eitthvað hefðbundnara samkvæmt matseðli.



Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.