„Sjalið hennar Elizu er einstakt“

„Sjalið sem Sælín prjónaði handa mér er ákaflega fallegt og þakka ég henni fyrir gjöfina og hlýhug í minn garð,” segir Eliza Reid, forsetafrú, en handverkskonan Sælín Sigurjónsdóttir á Reyðarfirði, afhenti Elizu stórt og glæsilegt handprjónað sjal á dögunum.

„Ég setti það nú bara að gamni mínu á Facebook að mig langaði að prjóna sjal handa Elizu, mér þótti hugmyndin skemmtileg og spes. Ég var líka aðeins að hugsa um landkynningu, ekkert endilega að kynna sjálfa mig, heldur íslenskt handverk. Kunningi minn hér á Reyðarfirði hafði samband við hana og spurði hvort hún vildi þiggja þetta, sem hún gerði og þá var ekki aftur snúið,“ segir Sælín, sem í framhaldi setti sig í samband við Elizu sem valdi fallega gráa Merino-ull frá Handprjóni.

Sjalið var ár í vinnslu
Sælín er alltaf með fleiri en eitt prjónaverkefni í gangi í einu og meðfram öðru tók sjalið slétt ár í vinnslu. „Þetta var gríðarleg vinna, en mjög skemmtilegt verkefni. Ég byrjaði með fimm lykkjur á prjónunum og þær enduðu í 824, þannig að það er ansi stórt. Ég rakti líka nokkrum sinnum upp það sem ég var ekki ánægð með, en ég vildi gera þetta svo það væri sómi að því. Sjölin eru ekki mín hönnun þó ég reikni þau út þá tek ég munsturbekki frá öðrum. Sjalið hennar Elizu er einstakt, ekkert er eins og það og uppskriftin verður ekki gefin upp.“

Sælín segist vona að Eliza eigi eftir að nota sjalið. „Ég sé hana að minnsta kosti oft með slæður um hálsinn á myndum. Ég vona að henni líki það og hún eigi eftir að nota það, ekki bara við hátíðleg tækifæri, heldur einnig hversdags.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.