„Situr sterkt eftir í mér að Erla hafi verið sterk persóna“

Í kvöld verða haldnir á Vopnafirði tónleikar þar sem flutt verða 14 ný lög sem Baldvin Eyjólfsson hefur samið við ljóð skáldkonunnar Erlu. Saga Erlu er um margt merkileg þar sem hún var ein af tíu fyrstu íslensku konunum til að gefa út bók.

„Ég þekki víða staðhætti sem hún fjallar um í ljóðum sínum, mér finnst hún ná góðri tilfinningu fyrir Vopnafirði.

Hún bjó upp á heiðarbýlunum hér í Vopnafirði og örugglega ekki í vellystingum. Það situr sterkt eftir í mér að hún hafi verið sterk persóna.“

Erla hét réttu nafni Guðfinna Þorsteinsdóttir. Hennar fyrsta bók, Hélublóm, kom út árið 1937 en bækurnar urðu alls fimm talsins. „Það er merkilegt að hún hafi náð að gefa út ljóðabækur, einkum á tíma þar sem konum var ekki mikið hampað.“

Baldvin segir að hvatinn að tónsmíðunum hafi komið frá Berghildi Fanney Hauksdóttur, þáverandi menningarfulltrúa Vopnafjarðarhrepps, sem hvatti vopnfirska listamenn til að sækja um í Uppbyggingarsjóð Austurlands.

„Við ræddum hvað við gætum gert. Hún er mikill aðdáandi Erlu og nefndi hana. Mér fannst nærtækast að semja lög og þetta vera tilvalið tækifæri til að gera ljóðum Erlu hærra undir höfði og koma þeim á framfæri við yngra fólk,“ segir hann.

Baldvin er uppalinn Vopnfirðingur en þrjú ár eru síðan hann snéri heim eftir nám í Reykjavík og hóf störf sem tónlistarkennari. Í rúmt ár hefur hann sökkt sér í verk Erlu.

„Ég hafði ekki kynnt mér ljóðin hennar áður en þetta veitti mér tækifæri til að kafa ofan í þau. Ég las og las ljóðin hennar. Ég vinn þannig að ég les ljóðin þar til að lag kemur til mín. Ég á enn eftir fullt af ljóðum sem mig langar að semja lög við.“

Hann segir ljóðin í ýmsum stílum, frá klassískum íslenskum dægurlögum yfir í popplög. Hluti laganna hefur verið fluttur áður við önnur tækifæri en þótt tónleikarnir séu viss endapunktur stendur hugurinn lengra og þá til útgáfu.

Tónleikarnir verða í félagsheimilinu Miklagarði og hefjast klukkan 20:00. Tónleikarnir marka einnig upphaf bæjarhátíðarinnar Vopnaskaks sem fram fer um helgina.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.