Símalaus samverusunnudagur á Seyðisfirði

„Það er áskorun fyrir alla að leggja frá sér símana í tólf tíma án þess að upplifa að maður sé að missa af einhverju,” segir Eva Jónudóttir, verkefnastjóri verkefnisins Heilsueflandi samfélag á Seyðisfirði, sem stendur fyrir símalausum samverusunnudegi á Seyðisfirði um helgina.



„Símalaus samverudagur gengur út á það að símanum eða snjalltækinu er lagt frá klukkan níu á sunnudagsmorgun og fram til níu á sunnudagskvöld. Með þessu vill heilsueflandi stýrihópurinn vekja athygli á þeim áhrifum sem notkun snjallsíma hefur á samskipti og tengsl foreldra og barna, sem og annarra fjölskyldu- og vinatengsla. Foreldrar og forráðamenn eru hvattir til að taka þátt í þessu átaki, íhuga hvað er hægt að gera í staðinn fyrir skjánotkunina og njóta samverunnar með fjölskyldu og vinum,” segir Eva.


Tveir símalausir dagar á dagskránni í ár
Á dagatali Heilsueflandi samfélags á Seyðisfirði eru tveir símalausir samverudagar á árinu 2019, sá síðari verður sunnudaginn 3. nóvember. „Við vorum einnig með símalausan dag í fyrra, það var markalausara þá, en í ár viljum við kýla á þetta af fullum krafti, sem og aðra fasta liði á dagatalinu, eins og bíllausu vikuna. Eftir svona fimm ár, þegar heilsueflandi verkefnið verður orðið sjálfbært, þá viljum við gjarnan að þessir dagar hafi fest sig í sessi og séu orðnir sjálfsagður hluti af lífinu hér á Seyðisfirði.”


„Við verðum að sýna gott fordæmi”
Eva segir hins vegar ekkert prógramm verða í bænum á sunnudaginn þessu tengt. „Með þessu erum við bara að hvetja fjölskyldur og vini til þess að finna sér eitthvað annað að gera og njóta samvista við hvert annað í stað þess að sitja saman þar sem hver og einn er í sínu snjalltæki. Þetta er alveg í takt við þá umræðu sem er í gangi um of mikla skjánotkun. Þeir sem taka þessu alvarlega geta átt frábæran samverudag án þess að skoða skjáinn,” segir Eva sem bætir því við að fullorðna fólkið verði að vera góðar fyrirmyndir í þessum efnum sem öðrum.

„Við erum ekkert betri en börnin okkar og dætur mínar spyrja mig stundum að því hvort það sé enginn skjátími á mig, bara þær. Við verðum að sýna gott fordæmi. Við erum orðin svo háð þessum tækjum að það er fullt af fólki sem horfir ekki á heila bíómynd án þess að kíkja á símann nokkrum sinnum á meða það er að horfa,” segir Eva.


Æskilegt að hafa mælikvarða á árangri
Eva segir það verði forvitnilegt að sjá eftir helgina hvort fólk tók þátt. „Svona verkefni tekur tíma. Fólk virðist spennt fyrir þessu og það verða líklega margir sem prófa, en svo er að sjá hverjir halda út allan daginn. Við gerum þetta svo aftur í nóvember og fyrir þann tíma væri gaman að vera búin að útbúa einhverskonar mælikvarða á hverju þetta er að skila.”

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.