Sigurborg Einarsdóttir sæmd fálkaorðunni

Sigurborg Ingunn Einarsdóttir, Eskifirði, var í meðal þeirra fjórtán Íslendinga sem forseti Íslands sæmdi heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu í gær. Sigurborg fékk riddarakrossinn fyrir framlag til heilbrigðisþjónustu í heimabyggð.

Sigurborg er fædd á Ísafirði 11. maí árið 1932 og alin þar upp. Hún útskrifaðist sem ljósmóðir árið 1956 og sem hjúkrunarfræðingur fimm árum síðar.

Hún fluttist austur á Eskifjörð þann 1. mars 1963 þar sem hún býr enn. Þar starfaði hún sem héraðshjúkrunarkona, ljósmóðir og síðan hjúkrunarforstjóri allt til ársins 1998. Á annað hundrað manns mættu í kveðjuhóf sem haldið var fyrir hana í félagsheimilinu Valhöll, en sem ljósmóðir tók hún á móti hundruðum Austfirðinga og sinnti mæðra- og ungbarnavernd í 34 ár.

Sigurborg var fyrsti formaður Ljósmæðrafélags Austurlands, sem stofnað var árið 1975 og gegndi ýmsum trúnaðarstörfum. Hún var í stjórn Krabbameinsfélags Austfjarða og formaður um tíma. Þá tók hún fyrstu skóflustunguna að núverandi heilsugæslustöð á Eskifirði, en bygging hennar hófst haustið 1992.

Sigurborg var gift Sören Sörensen, bílstjóra, sem er látinn. Saman eignuðust þau einn son, Pétur Þór. Þá ólu þau upp tvær dætur Sörens af fyrra sambandi.

Utan vinnunnar var Sigurborg áhugasamur steinasafnari. Hún og Sören byrjuðu að safna steinum árið 1976 og er safn þeirra á Eskifirði aðgengilegt fyrir áhugasama gesti.

Fleiri í orðuhafahópnum í gær eru með tengsl við Eskifjörð. Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, var meðal þeirra en hann ólst upp á Eskifirði til níu ára aldurs.

Sigurborg sjálf á svo sterk tengsl við fleiri í hópnum. Helgi Björnsson, söngvari, var meðal þeirra sem fengu orðuna en Sigurborg tók einmitt á móti honum er hann fæddist.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.