Orkumálinn 2024

Seldist upp í allar listasmiðjur á sjö mínútum

„LungA er fyrir alla, er maður ekki alltaf ungur,“ segir Sesselja Hlín Jónasardóttir, ein þeirra sem stýrir LungA – listahátíð ungs fólks á Austurlandi, sem er nú í fullum gangi á Seyðisfirði.


LungA var fyrst haldin árið 2000 en um er að ræða listahátíð þar sem sköpun, listum og menningu er fagnað með námskeiðum, fyrirlestrum og öðrum viðburðum.

„Dagskráin hófst síðastliðin miðvikudag, hátíðin var formlega sett á sunnudagskvöldið og listasmiðjurnar fóru af stað í gær. Hátíðinni lýkur svo næstu helgi með uppskeruhelgi sem samanstendur af sýningum listasmiðjanna og tónleikum,“ segir Sesselja Hlín.

„Við erum líka með fullt af nýju“
Er dagskráin í ár með hefðbundnu sniði? „Bæði og – við erum líka með fullt af nýju. Við erum með alveg frábæra listasmiðju-leiðtoga, en hefðbundnu listasmiðjurnar eru fyrir 18 ára og eldri og það seldist upp á sjö mínútum í þær allar. Í ár erum við einnig í samvinnu við Seyðisfjarðarskóla og bjóðum upp á listasmiðjur fyrir 12-18 ára nemendur og það eru þau Benni HemmHemm og Magga Stína sem leiða þær. Þá verða einnig tvö tónleikakvöld en aðeins hefur verið eitt hingað til,“ segir Sesselja Hlín og bendir á Facebook-síðu hátíðarinnar.  

Vilja opna umræðuna um „kyn“ enn frekar
„Við byrjum hátíðina þetta árið á LungA Lab, þar sem þemað er „kyn“. Við bjóðum uppá fjölda stórkostlega fyrirlestra og á þann hátt náum við vonandi að opna umræðuna um „kyn“ enn frekar.

Þetta árið koma hópar frá Danmörk, England, Svíþjóð og Íslandi. Við ætlum að ræða um kyn, ekki út frá neinum fyrirfram ákveðnum skoðunum, heldur út frá öllum þeim mismunandi sjónarhornum sem upp koma þessa daga. Umræðan er byggð í kringum vinnu í minni hópum, pallborðsumræðum, mismunandi æfingum og allskonar skemmtilegum innslögum.“

Í það minnsta von á 1000 gestum um helgina
Sesselja Hlín segir Seyðisfjörð iða af lífi og fjöri. „Nemendur eru 136 fyrir utan kennara og listamenn. Við eigum þess utan í það minnsta von á 1000 gestum um helgina. Hér er fögur stemmning og allir ganga fram af virðingu.“

Sesselja Hlín segist ekki eiga von á öðru en að veðrið um helgina verði hliðhollt. „Það er búið að vera æðislegt þannig að ég trúi ekki öðru en það verði bara þannig áfram.“

Ljósmynd: Timothée Lambrecq

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.