„Sauðkindin er táknmynd Íslands“

Í sumar hefur matarvagninum Fancy Sheep, sem þýða mætti sem „Fína kindin“ verið starfræktur á Seyðisfirði. Rekstraraðilar vagnsins segjast hafa hrifist af íslensku sauðkindinni á ýmsan hátt.

„Þetta er hugmynd sem kviknaði fyrir tveimur árum. Mér fannst vanta góðan götubita á viðráðanlegu verði.

Það hefur ekki verið hægt að fá hamborga víða fyrir minna en 2000 kall annars staðar en á bensínstöðvum,“ segir Martin Fabry sem rekur vagninn ásamt kærustu sinni, Justynu Materna.

Tékkland, Pólland, Holland, Ísland

Martin er tékkneskur að uppruna en Justyna pólsk. Þau hafa starfað hér á landi í nokkur ár og kynntust hérlendis. „Samkeppnin hefur harðnað mjög heima í Tékklandi því margir hafa fengið áhuga á matreiðslu. Við höfum búið hér meira og minna í fimm ár og þekktum því matarmenninguna betur hér. Þess vegna völdum við að koma með vagninn til Íslands.“

Matarvagninn kemur hins vegar frá Hollandi. „Martin var mjög ákveðinn í að vilja fá svona gamlan Mercedes Benz. Við fundum engan í Tékklandi en duttum niður á þennan í Hollandi. Þar hafði hann verið notaður sem húsbíll. Það fór nokkur tími í að koma honum í stand,“ segir Justyna.

Íslenska lambakjötið eitt besta kjöt heims

Með nafni vagnsins er vitaskuld vísað til íslensku sauðkindarinnar sem Justyna lýsir sem táknmynd Íslands. „Sauðkindin er fyrsta dýrið sem kemur upp í hugann hjá ferðamönnum hérlendis. Þær eru alls staðar. Þess vegna fannst okkur tilvalið að hafa kind í merkinu okkar þannig fólk myndi frekar eftir vagninum.“

Vinsælasti rétturinn á matseðlinum er vitaskuld lambaborgari. „Við vissum að ef við hefðum slíkan borgara á seðlinum þá myndu ferðamenn hafa áhuga á að smakka hann.

Íslenskt lambakjöt er líka eitt besta kjöt heims. Því töluðum við um það þegar við vorum að nefna vagninn að það væri synd að fá fólk ekki til að prófa hið frábæra íslenska lambakjöt í hamborgaraformi.“

En þau segjast líka hafa viljað efla matarmenningu á Íslandi. „Það er hægt að finna marga fína veitingastaði hér en ég saknaði götubitans. Við tölum um fínu kindina því við vildum gera hlutina öðruvísi. Ruslmatur úr frosnum borgurum, löðrandi í olíu og annarri óhollustu á að heyra sögunni til. Við vildum því sýna að úr litla vagninum okkar gætum við boðið upp á góðan mat fyrir sanngjarnt verð.“

Velkomin á Seyðisfirði

Martin og Justyna voru fyrst með vagninn í Stykkishólmi í fyrrasumar en völdu að koma til Seyðisfjarðar í ár. „Okkar ætlun var alltaf að vinna eins og skepnur í 5-6 mánuði og fara svo í frí. Þess vegna lokuðum við eftir sumarið í Stykkishólmi og fórum heim. Okkur fannst margir veitingastaðir þar en ekki svo margir ferðamenn,“ segir Martin.

„Við erum ekki fædd hérlendis þannig við tengjumst ekki einum stað umfram aðra. Okkur leist vel á Seyðisfjörð því hann er nær ferjunni. Við sóttum reyndar um á fleiri stöðum og var sums staðar hafnað, en frá bæjaryfirvöldum hér fengum við mjög vingjarnlegt svar,“ segir Justyna.

Þau segjast ekki hafa fundið fyrir ergelsi frá öðrum veitingahúsarekendum í bænum yfir samkeppninni frá matarvagninum. „Það er alls staðar hægt að finna einhvern pirraðan en við höfum fengið mjög góð viðbrögð hér. Við erum með aðra markhópa en veitingastaðirnir í bænum. Fólkið í bænum hefur líka verið afar hjálplegt og stutt okkur.

Við opnuðum hér um miðjan júní. Umferðin hefur ekkert verið of mikil en við höfum ekki yfir neinu að kvarta. Að vissu leyti er betra að það sé ögn rólegt frekar en það verði svo mikið að gera að við ráðum ekki við það,“ segja Martin og Justyna.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.