Sándor Kerekes tekur við af Torvald Gjerde

Ungverski tónlistarmaðurinn Sándor Kerekes hefur verið ráðinn organisti og kórstjóri í Egilsstaðakirkju, Vallaneskirkju og Þingmúlakirkju en hann tekur við keflinu úr höndum Torvalds Gjerde sem sest hefur í helgan stein.

Torvald þekkja allir sem komið hafa að kirkju- eða tónlistarstarfi á Austurlandi og þótt víðar væri leitað en hann var organisti og kórstjóri í kirkjunum þremur í yfir tuttugu ár. Var Torvald margoft heiðraður fyrir framlag sitt til lista og menningar á þeim tíma. Var hann heiðraður sérstaklega við sína síðustu guðsþjónustu í Egilsstaðakirkju í síðasta mánuði.

Sjö umsækjendur voru um starf hans þegar var auglýst en tveir drógu umsóknir sínar til baka og afréð sérstök ráðningarnefnd sóknarnefndanna þriggja að bjóða Sándor Kerekes starfið.

Sándor fæddist í Ungverjalandi 1975 og lauk meistaragráðu í orgelleik og tónlistarkennslu frá háskólanum í Debrecen þar í landi. Hann hefur síðustu ár starfað við kennslu, orgelleik og kórstjórn í borginni Nyíregyháza en alls hefur hann yfir 20 ára reynslu í heimalandinu.

Sándor mun leika í fyrsta skipti við athöfn í Egilsstaðakirkju næsta sunnudagskvöldið þegar gönguguðsþjónusta hefst með stund í kirkjunni klukkan 20.

Nýi kórstjórinn og organistinn Sándor Kerekes fyrir utan Egilsstaðakirkju. Hann og fjölskylda hans eru að koma sér fyrir á svæðinu. Mynd Þorgeir Arason

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.