Samverustundir og minningar dýrmætari en nokkur pakki

Sífellt fleiri eru farnir að huga að því að draga úr bæði streitu og veraldlegri neyslu í kringum jólin. Í því tilliti er ekki orðið óalgengt að fólk afþakki jólagjafir og gefi sjálft umhverfisvænar gjafir eða styrki hjálparstarf í stað þess að eyða háum fjárhæðum í gjafir. Reyðfirðingurinn Snær Seljan Þóroddsson og sambýliskona hans Sólveig Ásta Friðriksdóttir eru í þessum hópi.„Síðastliðin ár höfum við leitast við að draga úr neyslu og gera öll innkaup umhverfisvænni. Jólin eru auðvitað hátíð neyslunnar og á hverju ári fáum við og gefum óteljandi óþarfa hluti. Það er löngu ljóst að ofneysla er helsti áhrifavaldur stærsta vandamáls samtímans, loftlagsbreytinga.

Í raun fengum við þessa hugmynd frá Stjörnu-Sævari (Sævari Helga Bragasyni) í viðtali á Rás 2 þar sem hann var að gagnrýna komandi óþarfavertíð. Í framhaldi af því tókum við þá ákvörðun að gera okkar nánustu og umhverfinu þann greiða að afþakka jólagjafir,“ segir Snær, en þau Sólveig Ásta skrifuðu stöðufærslu um málið á Facebook-síðum sínum og gáfu um leið hugmyndir að vistvænum gjöfum.

„Í stað þess að gefa hluti ætlum við að gefa okkar nánustu gæðastundir og upplifanir. Á þessum tíma árs eru allir á yfirsnúningi og samverustundir eru af skornum skammti. Við þurfum að hlúa betur hvort að öðru og einbeita okkur að því skapa minningar. Þær eru miklu dýrmætari en nokkur pakki. Að auki þykir okkur nauðsynlegt að styrkja hjálparstarf. Gjafabréf til góðgerðarmála er hin fullkomna gjöf fyrir þá sem eiga allt.“

„Allir hafa sýnt þessu skilning“
Snær og Sólveig Ásta eignuðust sitt fyrsta barn á árinu, dóttur sem ber nafnið Embla. Afþakka þau gjafir til hennar líka? Hvernig hefur fjölskyldan tekið þessari nýju hugmyndafræði?

„Við höfum ekki látið nein bein fyrirmæli fylgja þessari ósk okkar, önnur en þau að við afþökkum gjafir. Við munum þó auðvitað þiggja þær gjafir sem okkar nánustu ákveða að gefa okkur. Hvað Emblu varðar þá skortir hana ekki neitt. Við höfum verið dugleg að biðja vini og vandamenn um notuð föt. Við þurftum bara að rétta út hendurnar og fengum heilu pokana fulla af dóti sem fyrri eigendur voru fegnir að losna við. Það er algjörlega ónauðsynlegt að birgja sig upp af nýjum barnavörum sem eru aðeins notuð í nokkra mánuði þegar flestar geymslur landsins eru fullar af slíku.

Við höfum aðeins fengið jákvæðar undirtektir við þessu. Fjölskyldur okkar tóku vel í þetta uppátæki enda þekkja þau okkur og okkar gildi best. Örfáum þótti þetta ef til vill svolítið langt gengið en allir hafa sýnt þessu skilning.“

Hverju telja þau Snær og Sólveig Ásta að ákvörðunin skili? „Minna af óþarfa að sjálfsögðu! Það verður allt bara svo miklu auðveldara þegar maður á minna af dóti. Síðan skal ekki gleyma því að minni neysla skilar sér í betri möguleikum afkomenda okkar til að lifa á þessari jörð í framtíðinni.“

Verja jólunum í Seljateigi í ár
„Við erum mikil jólabörn og okkur þykir agalega vænt um þessa hátíð. Náungakærleikurinn er í hámarki og það er svo mikil hlýja í loftinu þó kalt sé. Við skreytum eins og aðrir, setjum seríur í glugga og borðum góðan mat. Síðustu jól höfum við einnig vanið okkur á að búa til flestar jólagjafirnar. Það er ekkert sem kemur manni í meira jólaskap en að föndra yfir kertaljósum og jólabjór.

Kröfurnar sem við viljum oft gera til okkar sjálfra eru of miklar. Af þeirri ástæðu geta jólin hreinlega reynst mörgum um megn. Ef það á að versla gjafir fyrir alla, þrífa og skreyta allt hátt og lágt og elda ofan í stórfjölskylduna er ekki mikil orka eftir til að njóta. Við þurfum að stoppa aðeins og draga hægt og rólega inn (jóla)andann.

Það hljómar kannski klisjukennt en jólin koma auðvitað ekki í pakka. Það er miklu meira til þessarar góðu hátíðar komið. Við erum svo lánsöm að fá lánað ættaróðal fjölskyldu minnar, Seljateig, undir okkur þessi jól. Við ætlum að njóta okkar í botn í rólegheitunum í sveitinni.“

Vilja minna á „veganúar“
Snær segir hugsunarháttinn hafa verið lengi í þróun innan þeirra heimilis. „Við tengjum þetta ekki einungis jólahaldinu. Við höfum skref fyrir skref reynt að velja leiðir að vistvænna lífi. Þetta hefur falið í sér að taka út eins mikið plast úr okkar innkaupakörfu og mögulegt er, neyta ekki dýraafurða, versla á nytjamörkuðum, nota taubleyjur og fleira og fleira.

Við viljum einnig minna á „veganúar“ í janúar. Fyrir þá sem ekki vita þá er markmið veganúar að vekja fólk til umhugsunar um áhrif neyslu dýraafurða og kynna kosti vegan æðis fyrir heilsu, umhverfi og dýravernd. Og já, gleðileg jól.“

Hugmyndalisti að vistvænni og persónulegri gjöfum
Sólveig Ásta birti eftirfarandi hugmyndalista af umhverfisvænum og persónulegum gjöfum á Facebook-síðu sinni;
Gjafaverslun UNWOMEN
Gjafabréf Landverndar
Sannar gjafir UNICEF til barna í neyð 
Gjafabréf til styrktar Rauða krossinum 
Tækifæriskort til styrktar Líf styrktarfélags 
Jólakort frá Styrktarfélagi krabbameinssjúkra barna 
● Íslenskt handverk
● Kort í sund, jóga, á skauta, badminton eða annað sambærilegt
● Gjafabréf út að borða, í leikhús, bíó, matreiðslunámskeið, dekur, vínsmökkun, dansnámskeið, í keilu eða annað sambærilegt
● Persónuleg gjafabréf fyrir barnapössun eða samveru af hvaða tagi sem er með vinum, til dæmis matarboð eða spilakvöldi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar