Samveran með fjölskyldunni skiptir mestu á Neistaflugi

Dagskrá Neistaflugs í Neskaupstað hófst í gær og heldur áfram í kvöld þótt hátíðin verði ekki sett formlega fyrr en annað kvöld. Framkvæmdastjóri hátíðarinnar segir áhersluna vera á fjölbreytta dagskrá fyrir alla fjölskylduna.

Dagskráin hófst í gær með kvikmyndasýningu sem kallast „Leiftur úr liðinni tíð“ en þar er um að ræða úrval frá Norðfirði úr myndasafni Þórarins Hávarðssonar. Hún verður endursýnd á laugardag.

Í dag verður haldið upp á 85 ára afmæli Lystigarðsins auk þess sem Mannakorn kemur fram á tónleikum í kvöld. Hátíðin verður síðan sett formlega eftir hverfagleði annað kvöld.

Á laugardag verður síðan fjölskyldudagskrá á hátíðarsvæðinu við gervigrasvöllinn, tónleikar með Einari Ágúst í Lystigarðinum og ball með Pöpunum og Matta Matt um kvöldið. Þetta mun vera í fyrsta sinn í nokkurn tíma sem Matti kemur fram með sveitinni auk þess sem hann verður gestur á tónleikum Einars Ágústs.

„Mér finnst samveran, þessi fjölskyldustund sem maður getur átt, skipta mestu máli á Neistaflugi,“ segir Eyrún Björg Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Neistaflugs.

Þetta er annað árið sem hún leiðir hátíðina en það gerir hún ásamt móður sinni og yngri systur. Þær hafa verið í forsvari fyrir hátíðina frá 2017. „Við leggjum mikið upp úr því að vera með mikla fjölskyldudagskrá. Það er nóg um að vera fyrir alla. Það er klisja, en hún virkar og við erum stoltar af því,“ segir Eyrún.

Á sunnudagskvöld verða síðan tónleikar á hátíðarsvæðinu. Þar koma meðal annars fram fjórir austfirskir tónlistarmenn, þau Haraldur Þór Guðmundsson, Ísabella Danía Heimisdóttir, María Bóel Guðmundsdóttir og Mikael Einar Steindórsson, sem flytja eigið efni.

„Við auglýstum eftir austfirskum flytjendum og fengum það góð viðbrögð að við þurftum að velja úr. Við settum það sem skilyrði að efnið væri frumsamið, við eigum marga góða flytjendur hér eystra en það eru ekki allir sem semja sitt eigið efni. Þessi góðu viðbrögð gefa okkur vonir um að hægt verði að halda áfram á sömu braut.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.