Samgönguverkefnum frestað en ekki hætt við þau

Kristján L. Möller samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra sagði á almennum stjórnmálafundi á Djúpavogi í gærkvöld að ekki hefði verið ákveðið endanlega hvernig samgönguframkvæmdum verður forgangsraðað, en þær myndu allar frestast eitthvað. Ráðuneytið veit ekki enn hvað það mun hafa úr að spila á næstu tveimur til þremur árum og það mun ekki skýrast fyrr en líða tekur á þetta ár.

41_11_59---stop-usa-road-sign_web.jpg

Kristján sagði engar framkvæmdir hafa verið slegnar af, en að fara þyrfti í nánari forgangsröðun í hverju einstöku verkefni  og setja stífari ramma utan um þau. Fyrir lá að Axarvegur færi í útboð í haust og gaf ráðherra út að það mun frestast fram á næsta ár. Ljóst er að Norðfjarðargöng eru eitt þeirra verkefna sem slegið verður á frest, en hversu lengi liggur ekki fyrir.

Ráðherra mun funda með oddvitum allra stjórnaraflanna á Austurlandi fljótlega og fara meðal annars yfir með þeim hvernig beri að forgangsraða samgönguverkefnum í fjórðungnum.

 

Á fundinum varð töluverð umræða um Evrópusambandið og sýndist sitt hverjum. Rætt var um fiskveiðistjórnunarkerfið sem miklar áhyggjur eru af að standi á brauðfótum.

 Kvótakerfið lokar á tímabundnar hjálparaðgerðir 

Andrés Skúlason, oddviti Djúpavogshrepps, sagði í samtali við Austurgluggann í morgun að á fundinum hefði verið kallað eftir upplýsingum frá Kristjáni og Einari Má Sigurðarsyni alþingismanni, sem báðir voru með framsögu, um hvort ekki ætti að koma sjávarbyggðum til hjálpar. Til dæmis með því að gefa krókaveiðar frjálsar að einhverju marki til að efla atvinnulífið.

Fram kom að kvótakerfið virðist þar vera mikill Þrándur í götu. Andrés segir áhyggjuefnið á Djúpavogi að trillurnar séu að hverfa, eins og alls staðar annars staðar og ekkert geti tekið við. Svo rígbundið sé kerfið. ,,Þarna er tilkostnaður enginn fyrir ríkið, aðeins þyrfti að losa um í kerfinu en ekki að kollvarpa því. Hægt væri að bregðast við með því að gefa krókaveiðar frjálsar með ákveðnu þaki og banna framsalið, sem væri meginmál. Þetta virðist þó hægara sagt en gert,“ sagði Andrés.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.