Saga Fáskrúðsfjarðar komin til landsins

Fyrstu eintökin af sögu Fáskrúðsfjarðar eru komin landsins og fara í dreifingu innan tíðar. Verkið er stórvirki í þremur bindum þar sem sagan er rakin frá landnámi fram yfir síðustu aldamót. Söguritari segir að í bókinni sé ýmislegt að finna sem liggi ekki í augum uppi fyrir Fáskrúðsfirðinga samtímans.

„Þetta hefur verið langur og strangur ferill. Árið 2010 var ákveðið að ráðast í verkefnið þegar Fjarðabyggð og Sögufélag Fáskrúðsfjarðar sömdu við mig um að sinna því.

Á þessum tíma var ég að vinna í sögu hvalveiða við Ísland og vissi að ekki myndi mikið gerast í Fáskrúðsfjarðarsögunni fyrr en hvalveiðibókinni lyki. Ég byrjaði þó strax að skima eftir heimildum,“ segir Smári Geirsson, sem skrásett hefur söguna.

Ríflega 1000 ára saga

Umfjöllunin hefst sem fyrr segir við landnám og síðan er sagan rakin fram til ársins 2003, þegar Búðahreppur sameinast Stöðvarhreppi og úr verður Austurbyggð. Af nógu er að taka á þeim ríflega þúsund árum sem þar eru á milli.

„Svona byggðarsaga er alltaf yfirlitsrit sem þýðir að ekki er fjallað af ýtrustu nákvæmni um öll málefni heldur komið inn á fjölmarga þætti. Til þessa hefur ekki mikið verið ritað um sögu Fáskrúðsfjarðar, ef undanskilinn er þáttur Fransmanna. Hann hefur þótt spennandi en eins og fram kemur í bókinni þá kom fólk víðar að erlendis frá, svo sem frá Noregi og Færeyjum, sem hafði djúpstæð áhrif á samfélagið við Fáskrúðsfjörð. Síðan bætast Þjóðverjar við þegar þeir koma á fót hvalstöð á Fögrueyri.

Það fer drjúgt pláss í að fjalla um sveitastjórnarmál, landbúnað, fiskveiðar, verslun, iðnað, félagsstarf, menningarlíf, skólastarf, ákveðin tímabil sögunnar eins og ár síðari heimsstyrjaldarinnar eða stofnanir á borð við sparisjóðinn og rafveituna. Þá er vikið að merkum tímamótum eins og tilkomu útvarps og síma og einnig þáttaskilum í samgöngum,“ segir Smári.

Hann segir vinnuna við verkið hafa verið ánægjulega en líka krefjandi því oft þurfti að grafa eftir heimildum, bæði rituðum heimildum og myndefni. „Það hafa margir komið við sögu og margir aðstoðað mig þannig ég hef kynnst fólkinu, sem hefur verið einkar skemmtilegt.“

Þéttbýlið á Hafnarnesi

Smári kveðst við ritunina hafa fræðst um ýmsa þætti sögunnar sem hann hafði haft takmarkaða vitneskju um og komi eflaust mörgum á óvart. „Ég held að Austfirðingar í dag átti sig til dæmis ekki á hver þáttur staða eins og Hafnarness var. Þar byggðist á sínum tíma upp sjávarþorp með á annað hundrað íbúum og útgerðin blómstraði. Síðan breyttust útgerðarhættir og forsendur byggðarinnar brustu.“

Fyrstu eintökin af Fáskrúðsfjarðarsögu komu til landsins á mánudagsmorgunn. Verkið fer í almenna sölu innan skamms en formlegt útgáfuhóf verður haldið á Fáskrúðsfirði um miðjan september. Þar til er hægt að kaupa það í áskrift á sérstöku tilboðsverði, 25.000 kr., hjá útgefandanum, Bókaútgáfunni Hólum (This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.).

Sagan kemur út í þremur bindum sem samanlagt eru á milli 1700-1800 síður. Verkið prýðir fjöldi mynda. „Fæst af þeim kemur af söfnum heldur þurfti að leita þær uppi. Fáskrúðsfirðingar hafa í gegnum tíðina átt mjög góða ljósmyndara og í bókunum eru margar afar áhugaverðar myndir,“ segir Smári að lokum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.