Safnafólk hittist á Hallormsstað

Farskóli FÍSOS, félags íslenskra safna og safnmanna, hefst á Hallormsstað í dag og stendur til föstudags. Farskólinn er árleg fagráðstefna safnafólks á Íslandi og í ár er yfirskrift hans „Söfn á tímamótum.“

Farskólinn hefur verið haldinn árlega síðan árið 1989 og er mikilvægur vettvangur endurmenntunar og samstarfs meðal íslenskra safna. Þar hittist safnafólk allsstaðar að af landinu, ber saman bækur sínar, fræðist um það nýjasta sem er í gangi á söfnum hér á landi og erlendis og styrkir tengslanet sitt. Farskólinn er jafnan vel sóttur og munu um 120 einstaklingar sem starfa á fjölbreyttum söfnum landsins leggja leið sína í Hallormsstað.

Í gegnum tíðina hefur ráðstefnan verið haldin víðsvegar um land og þá í samstarfi við heimafólk á hverju svæði. Að þessu sinni eru það fulltrúar Minjasafns Austurlands á Egilsstöðum, Tækniminjasafns Austurlands á Seyðisfirði og Safnastofnunar Fjarðabyggðar sem hafa haft veg og vanda af skipulagningunni.

„Skipulagningin hefur gengið vel enda mikið og gott samstarf á milli safnanna á Austurlandi.“ segir Elsa Guðný Björgvinsdóttir, safnstjóri Minjasafns Austurlands. Aðspurð um yfirskrift ráðstefnunnar segir hún: „Söfn standa á tímamótum í margvíslegum skilningi og á ráðstefnunni erum við að horfa til framtíðar, skoða nýja miðlunarmöguleika, nýja möguleika og áherslur í varðveislu, nýjar áherslu í safnastarfi og margt fleira.“

Á Farskólanum er boðið upp á áhugaverða fyrirlestra og spennandi málstofur en meðal umfjöllunarefna í ár eru ný alþjóðleg safnaskilgreining, skráning ljósmynda, grisjunaráætlanir, safnfræðsla, umhverfismál, jafnrétti, varðveisla báta, tengsl safna og ferðaþjónustunnar og fleira. Þá verða söfn og sýningar á svæðinu jafnframt heimsótt. Á Farskólanum fer einnig fram aðalfundur Félags safna og safnmanna, úthlutun styrkja Safnaráðs til verkefna safna og síðast en ekki síst árshátíð safnafólks.

Kynnast austfirskri safnastarfsemi

Meðal viðburða á ráðstefnunni í dag verður foropnun á Vélsmiðju Jóhanns Hanssonar á Seyðisfirði en farið verður í skoðunarferð þangað eftir hádegi í dag. Húsið skemmdist í skriðunni sem féll á Seyðisfjörð 18. desember 2020 og var um tíma talið ónýtt en að undanförnu hefur verið unnið að endurbótum á því. Stjórnendur Tækniminjasafns Austurlands, sem á húsið, munu þar kynna fyrirhugaðar áætlanir um notkun á rýminu og nýja sýningu.

Meðal málstofa sem í boði eru á ráðstefnunni á morgun er umfjöllun um endurskoðun á söfnunarstefnu og grisjunaráætlun safnsins, sem vinna var hafin við áður en skriðan féll en tók þá vinkilbeygju. Í annarri málstofu fjallar Skúli Björn Gunnarsson, forstöðumaður Gunnarsstofnunar á Skriðuklaustri, um nýtingu sýndarveruleika, leikjavæðingu og aðra stafrænar lausnir við miðlun, skráningu og varðveislu menningararfs.

Einnig verður umhverfið á Hallormsstað skoða, farið í ferðir inn í Skriðuklaustur og Óbyggðasetrið. Farskólanum lýkur á föstudag með pallborðsumræðum um hvort söfn séu ferðaþjónusta. Meðal þátttakenda verða Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, Jónína Brynjólfsdóttir, forseti sveitarstjórnar Múlaþings og starfsmaður Tækniminjasafnsins og Signý Ormarsdóttir, yfirverkefnastjóri hjá Austurbrú.

Þátttakendur í Farskólanum árið 2021 en þá fór hann fram í Stykkishólmi. Ljósmyndari: Hörður Geirsson, Minjasafninu á Akureyri.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.