Rúllandi snjóbolti dregur listamenn til Djúpavogs

Samtímalistasýningin Rúllandi snjóbolti /12, hin sjötta úr sýningarröðinni sem sett er upp á Djúpavogi, opnar í gömlu Bræðslunni þar á morgun. Sýningin er farin að vekja á Djúpavogi sem myndlistarsvæði og listamenn sem tengjast sýningunni sýna vaxandi áhuga á að dveljast á staðnum.

„Stemmingin fyrir opnuninni er mjög góð og undirbúningurinn gengið vonum framar.

Við finnum að sýningin vekur athygli og listamenn sækjast eftir að taka þátt í henni. Við finnum það aukast að þeir vilji koma og vera á svæðinu og nokkrir þeirra sem taka þátt í ár dvelja hér opnunarhelgina og lengur,“ segir Bryndís Reynisdóttir, menningarmálafulltrúi Djúpavogshrepps.

Á sýningunni í ár eiga 24 listamenn frá Íslandi, Evrópu og Asíu verk. Sýningin er skipulögð af Kínversk-evrópsku listamiðstöðinni CEAC, sjálfeignarstofnun sem er 20 ára í ár. Eitt af markmiðum hennar er að stuðla að menningarlegum samskiptum milli Kína og Vesturlands.

Hún var stofnuð af Ineke Guðmundsson með stuðningi eiginmanns hennar, Sigurðar Guðmundssonar. Sigurður, sem myndað hefur sterk tengsl við Djúpavog, er ekki meðal þeirra sem sýna í ár en hann er þó á staðnum og hefur lagt virka hönd á plóg í aðdraganda opnunarinnar.

Af listamönnunum sem sýna í ár má nefna Eygló Harðardóttur, sem fékk íslensku myndlistarverðlaunin sem myndlistarmaður ársins í ár og Halldór Ásgeirsson. Sá verður með gjörning við opnunina á morgun þar sem hann nýtir hráefni sem hann hefur viðað að sér á Djúpavogi síðustu daga.

„Það er eitt af því við sýninguna sem rímar vel saman við Cittaslow-hugmyndafræðina sem við höfum í hávegum hér á Djúpavogi,“ segir Bryndís. Hugmyndafræði hreyfingarinnar, sem sveitarfélagi er aðili að, gengur meðal annars út á á verndun náttúru og menningarminja, fegrun umhverfis, umhverfisgæði, eflingu staðbundinnar matarmenningar, gestrisni, kurteisi og vinsamlegt viðmót.

Heiðursgestur opnunarinnar á morgun verður Lilja Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra. Sýningin er svo opin alla daga 11-16 til 18. ágúst.

Eftirtaldir listamenn taka þátt í Rúllandi snjóbolta /12:

Axis Art project / Eva Ísleifs / Eygló Harðardóttir / Guðrún Benónýsdóttir / Halldór Ásgeirsson / Hildigunnur Birgisdóttir / Jin Jing / Jos Houweling / Kjartan Ari Pétursson / Kristján Guðmundsson / Lilja Birgisdóttir / Liu Yuanyuan /Luuk Schröder / Marianne Lammersen / Marjan Teeuwen / Meiya Lin / Nanda Runge / Nick Renshaw / Örn Alexander Ámundason / Rakel McMahon / Styrmir Örn Guðmundsson / Twan Janssen / Una Margrét Árnadóttir / Yan Jian.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.