Rithöfundalestin 2020: Allt uns festing brestur eftir Davíð Þór Jónsson

Séra Davíð Þór Jónsson hefur ort 21 trúarljóð undir dróttkvæðum hætti. Ljóðin eru ort við 13 liði hinnar klassísku messu.

„Ég hef fengist við að yrkja eins lengi og ég man eftir mér og hef haft mikinn áhuga á hvernig hægt er að segja sama hlutinn á mismunandi vegu,“ segir séra Davíð Þór um bókina.

„Þessi ljóð eru ort sem tilbrigði og stef, við og út frá þessum klassísku messutextum sem farið er með við helgihald. Þetta er tilraun til að brjóta klakabrynju vanans utan af textunum og skyggnast undir þá. Það getur verið auðvelt að tapa merkingu þeirra og boðskap þegar maður ryður þeim upp úr sér eins og merkingarlausri orðarunu.

Dróttkvæðni hátturinn er gamall, forn og rammíslenskur en ber með sér blæ og hughrif ævafornrar hefðar. Það er talað um bundið mál og ég held að það sé erfitt að binda mál meira en dróttkvæðni hátturinn krefst að gert sé.“

Davíð Þór er fæddur árið 1965 og hefur starfað sem þýðandi, raddleikari og ljóðskáld. Hann gegndi embætti héraðsprests í Austurlandsprófastsdæmi 2014-16 en hefur síðan verið sóknarprestur í Laugarnesprestakalli í Reykjavík.

Rithöfundalestin hefur verið árviss viðburður á Austurlandi þar sem landsþekktir rithöfundar, í bland við austfirska höfunda, hafa lesið upp úr nýútkomnum verkum sínum á Skriðuklaustri í Fljótsdal, Vopnafirði, Seyðisfirði og í Neskaupstað. Vegna samkomutakmarkana færist rithöfundalestin í ár yfir á netið og er unnin í samstarfi við Austurfrétt.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.