Rithöfundalestin 2020: Heillaspor eftir Gunnar Hersvein, Helgu Kjerúlf og Heru Guðmundsdóttur

Heimspekingurinn Gunnar Hersveinn er einn þriggja höfunda nýrrar bókar, Heillasporin – gildin okkar, sem kom út fyrr á árinu. Helga Björg Kjerúlf og Hera Guðmundsdóttir teiknuðu og hönnuðu bókina.

„Það eru mörg markmið með útgáfu bókarinnar, meðal annars að skapa samræður og samtal milli kynslóða um lífsgildin sem leggja grunninn að farsælu lífi,“ segir Gunnar Hersveinn.

„Hugtök eins og gleði, þakklæti, hugrekki, virðing og ást koma við sögu í bókinni. Ég vona að börn og foreldrar geti gripið bókina og talað saman um þessi gildi, til dæmis ef eitthvað kemur upp á í tengslum við vináttuna.“

Gunnar Hersveinn er fæddur árið 1960. Eftir hann liggja bækur um bæði heimspekileg málefni og ljóð. Hann bjó um tíma á Egilsstöðum þar sem hann starfaði sem menntaskólakennari. Þá skrifaði hann leikritið Ef sem leikfélag ME setti upp árið 1993.

Rithöfundalestin hefur verið árviss viðburður á Austurlandi þar sem landsþekktir rithöfundar, í bland við austfirska höfunda, hafa lesið upp úr nýútkomnum verkum sínum. Rithöfundalestin 2020 er samstarfsverkefni Gunnarsstofnunar á Skriðuklaustri, menningarmálanefndar Vopnafjarðarhrepps, Skaftfells menningarmiðstöðvar á Seyðisfirði, Menningarstofu Fjarðabyggðar, menningarmálanefndar Djúpavogs og Austurfréttar/Austurgluggans.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.