Rithöfundalestin 2020: Ég skal segja ykkur það eftir Sólveigu Björnsdóttur

Ég skal segja ykkur það er fyrsta ljóðabók Sólveigar Björnsdóttir að Laufási í Hjaltastaðaþinghá þótt kveðskapur hennar hafi birst áður í bæði ritsöfnum og tímaritum. Bókin er sú tuttugasta í bókaflokknum Austfirsk ljóðskáld sem Félag ljóðaunnenda á Austurlandi gefur út.

„Það var búið að ýta mikið að mér að gefa út ljóðin mín en, oft var pikkað í mig og spurt hvort ég yrði ekki næst en ég hummaði það alltaf fram af mér. Svo endaði það með því að ég lét undan og tók blaðsnifsin úr skúffunni,“ segir Sólveig.

Hún sækir yrkisefni sín meðal annars í náttúruna og æskuminningar frá Borgarfirði eystra.

„Ljóðin mín fjalla um náttúruna, dýrin, blómin og allt mögulegt. Ég er mikið náttúrubarn. Svo fór ég mikið heim á Borgarfjörð í endurminningar mínar. Ég vildi ekki tína því sem þar var að gerast þegar ég var að alast upp. Svo er einn kaflinn sem heitir „Áfram skal haldið“ sem er um eitt og annað í mínu daglega lífi.“

Rithöfundalestin hefur verið árviss viðburður á Austurlandi þar sem landsþekktir rithöfundar, í bland við austfirska höfunda, hafa lesið upp úr nýútkomnum verkum sínum. Rithöfundalestin 2020 er samstarfsverkefni Gunnarsstofnunar á Skriðuklaustri, menningarmálanefndar Vopnafjarðarhrepps, Skaftfells menningarmiðstöðvar á Seyðisfirði, Menningarstofu Fjarðabyggðar, menningarmálanefndar Djúpavogs og Austurfréttar/Austurgluggans.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.