Reykjavíkurdætur veita innblástur

„Rithöfundalestin er mjög skemmtileg og mikilvæg viðbót við menningarlífið á Austurlandi,“ segir Héraðsbúinn og skáldið Stefán Bogi Sveinsson, sem ferðast með lestinni um Austurland um helgina og les upp úr ljóðabók sinni Ópus sem kom út fyrir stuttu. Stefán Bogi er í yfirheyrslu vikunnar.


„Jólavertíðin er mikil gósentíð bókaunnenda en höfundar eru oftast að flakka um höfuðborgarsvæðið að lesa upp og kynna verk sín. Verkefni á borð við Rithöfundalestina tryggja okkur fyrir austan sneið af þeirri köku, sem er alveg frábært.

Það er rosalega mikilvægt fyrir okkur sem erum að standa í bókaútgáfu hér á svæðinu að fá þetta tækifæri til að vera með í lestinni. Bæði til að fara um og hitta fólk en líka til að hitta skáldin og höfundana sem koma til okkar. Þetta er ekki mjög stór hópur hér eystra. En það er mikið ánægjuefni að fjöldi útgefinna verka á svæðinu gefur tilefni til að standa fyrir upplestrarviðburðum til að kynna þau. Það er ákveðið hraustleikamerki á þessum þætti menningarlífsins,“ segir Stefán Bogi.

Fullt nafn: Stefán Bogi Sveinsson.

Aldur: 38 ára.

Starf: Leiðsögumaður, skáld og forseti bæjarstjórnar.

Maki: Heiðdís Ragnarsdóttir.

Börn: Auðbjörg Elfa 8 ára, Inga Hrafney 5 ára og Álfrún Margrét sem fæddist í ágúst.

Hvað var í tísku þegar þú varst yngri en er það ekki lengur? Svo margt. En það besta sem ég man eftir voru samt kraftgallarnir. Hvenær fyrr og síðar hefur það gerst að það kemst í tísku hjá unglingum að klæða sig við hvert tilefni í hlýjustu og skjólbestu flík sem hönnuð hefur verið? Ég held að margir foreldrar myndu þiggja að þetta tískufyrirbrigði kæmi aftur.

Besta bók sem þú hefur lesið? Ljósa eftir Kristínu Steinsdóttur er ótrúleg bók. The Heroes eftir Joe Abercrombie er líka frábær

Lest þú sjálfur mikið yfir árið? Ekki eins mikið og mig langar og það fer töluvert eftir árstíma. En svona 20-30 bækur kannski.

Ef þú gætir öðlast yfirnáttúrulegan kraft, hver væri hann? Að geta skilið öll tungumál.

Hver er þinn helsti kostur? Ég tel mig vera býsna tilfinninganæman og mér þykir það vera kostur.

Hver er þinn helsti ókostur? Ég get verið svolítið hvatvís á stundum. Það hefur leitt til fljótfærnislegra ákvarðana í gegnum tíðina.

Hvaða ósið hefur þér reynst erfiðast að hætta? Ég sting pappír í eyrun á mér. Óskiljanlegur ávani sem ég haft frá barnæsku og get ekki hætt.

Hvað er rómantík? Að taka sér tíma til að helga sig þeim sem maður elskar.

Hvað borðar fjölskyldan á aðfangadag? Ég ólst upp við rjúpur. En ég er ekki veiðimaður og konan er ekki vön því svo að það hefur verið svínahamborgarhryggur undanfarin jól.

Hvað er einkennandi fyrir aðventuna á þínu heimili? Eins og hjá flestum held ég að það séu jólaljósin. Mér þykir vænt um að sjá þeim fjölga jafnt og þétt eftir því sem líður á aðventu. Bæði inni á okkar heimili og annarsstaðar.

Mesta undur veraldar? Í Jóhannesarguðspjalli segir á einum stað: „Enginn á meiri kærleik en þann að leggja líf sitt í sölurnar fyrir vini sína.“ Hvenær sem einhver gerir það er það mesta undur veraldar.

Ef þú þyrftir að dansa til að bjarga lífinu, undir hvaða lagi myndirðu vilja dansa? Sennilega Luftgítar með Sykurmolunum og Johnny Triumph.

Syngur þú í sturtu? Eiginlega frekar á flestum öðrum stöðum en í sturtu.

Hvað er leiðinlegasta húsverkið þitt og af hverju? Húsverk þykja mér almennt ekki skemmtileg en að ryksuga getur auðveldlega fengið mig til að missa stjórn á skapi mínu. Það er alltaf eitthvað fyrir, ryksugan er alltaf of kraftlaus og snúran nær aldrei þangað sem ég vil fara, auk þess sem ég hrindi yfirleitt alltaf einhverju um koll. Óþolandi!

Draumastaður í heiminum? Það eru margir stórkostlegir staðir í veröldinni. En af einhverjum ástæðum varð ég ofboðslega heillaður af Sidi Bou Said í Túnis. Fann einhverja einstaka ró og fegurð þar.

Ef þú fengir að hitta fimm persónur úr mannkynssögunni sem væri, hverjar yrði fyrir valinu? Ég myndi vilja bjóða Terry Pratchett, Leonard Cohen, J.R.R. Tolkien, Stephen Fry og Sappó frá Lesbos í kvöldmat.

Hver er þín helsta fyrirmynd? Það er kannski ekki hægt að segja að ég eigi mér sérstaka fyrirmynd, en það eru margir sem ég dáist að og vill tileinka mér eitthvað af því sem viðkomandi gerir. Svo einkennilega sem það kann að hljóma hafa Reykjavíkurdætur veitt mér svakalegan innblástur undanfarin misseri. Það er eitthvað við að brjóta niður norm og ekki láta segja sér hvað menn og konur eiga að eða mega gera. Við eigum bara að vera það sem við viljum vera og gera það sem við viljum gera.

Settir þú þér áramótaheit í fyrra? Ef svo er, hvernig tókst að halda því? Ég hef stundum sett mér áramótaheit, eða markmiðalista, en ekki í fyrra. Þetta hefur gengið misvel í gegnum tíðina.

Ætlar þú að setja þér áramótaheit í ár? Nei ég held ekki.

Topp þrjú á þínum „bucket list“? Skrifa skáldsögu. Fá leikrit eftir mig sett á svið. Finna ásættanlegt íslenskt orð yfir „bucket list“.

Hvað er það merkilegasta sem hefur gerst í heiminum á þínum líftíma? Samfélagsmiðlarnir. Það er ekki enn komið í ljós hvert það leiðir okkur endanlega, en tilkoma þessara miðla hefur haft áhrif á ótrúlega mörgum sviðum þjóðlífsins.

Duldir hæfileikar? Ég held ég hafi í gegnum tíðina reynt að draga fram alla þá hæfileika sem ég mögulega hef til að bera og reynt að sýna þá í meira mæli en nokkur kærir sig um. En ég vona að innra með mér leynist myndlistamaður. Mig langar að prófa það.

Ljósmynd: KOX.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.