Orkumálinn 2024

Reyðfirðingar senda út rafræna skemmtidagskrá í stað þorrablóts

Þorrablótin á Austurlandi hafa týnt tölunni eitt af öðru síðustu vikur vegna Covid-faraldursins. Reyðfirðingar geta ekki haldið blótið sem átti að vera númer 100 í röðinni en hafa tekið upp skemmtidagskrá sem sent verður út rafrænt.

„Við sáum snemma í hvað stefndi en við ákváðum að annað hvort yrði annáll eða rafrænt blót þannig að ritnefndin byrjaði að skrifa hann.

Það er leiðinlegt að halda ekki blót en það skilja allir aðstæður og vegna þeirra var ekki erfitt að ákveða að halda ekki blótið,“ segir Hólmgrímur Elís Bragason, annar formanna þorrablótsnefndar Reyðarfjarðar.

Bóndadagur er á morgun og undir venjulegum kringumstæðum væri fjöldi þorrablóta framundan um helgina. Þau hafa hins vegar mörg týnt tölunni, strax fyrir jól var ákveðið að aflýsta alveg blótunum á bæði Egilsstöðum og Seyðisfirði. Þá hefur þorrablóti Fellamanna verið aflýst.

Tvö rafræn blót um helgina

Reyðfirðingar og Eskifirðingar ætla hins vegar að kýla á rafræn blót um helgina, Reyðfirðingar á morgun en Eskfirðingar á laugardag. Þá hefur Kommablótsnefndin í Neskaupstað boðað viðburð 30. janúar en ekki liggur ljóst fyrir hvort þar verði um að ræða byltingu eða blót!

„Nefndin var samstíga um að gera þetta svona fyrir þá sem hlægja bara einu sinni á ári. Þetta er sárabót fyrir okkur öll þótt við þurfum að fresta blótinu um ár,“ segir Hólmgrímur.

Búið er að taka upp skemmtiatriðin sem eru um 50 mínútur að lengd sem gerð verða aðgengileg klukkan 21:00 á morgun þegar slóð verður dreift í Facebook-hópi Reyðfirðinga. Blótið verður aðgengilegt í sólarhring.

Þorrablót fyrir fjölskylduna

Þótt það sé einkum ætlað Reyðfirðingum verður það tæknilega séð öllum opið og skrifað fyrir alla fjölskylduna. Hólmgrímur segir nefndina hafa verið meðvitaða um að rafræn skemmtidagskrá lyti að einhverjum leyti öðrum lögmálum en sú sem aðeins er leikin einu sinni á sviði.

„Við erum meðvituð um að öll fjölskyldan horfir og reynum að fara ekki yfir strikið. Það er kannski eitt atriði sem er örlítið óhuggulegt en það er rétt að geta þess að það slasaðist enginn við tökur á því.“

Halda blótið að ári

Að fresta blóti er mögulega þyngra fyrir Reyðfirðinga en aðra því blótið um helgina átti að verða það 100. í röðinni á staðnum. Hólmgrímur segir það verða haldið á næsta ári og núverandi nefnd muni standa að baki því, þótt hún setji saman skemmtidagskrá í ár.

„Þetta blót verður þá númer 99 ¾ í röðinni. Það er búið að vera gaman að gera þetta, það hafa allir gaman af að fíflast og gera grín að náunganum og sjálfum sér. Þetta er mun minni vinna en í venjulegu blóti, það þarf ekki að gera húsið klárt en nefndin vill síðan halda blót. Hún ákvað í sameiningu að klára það verkefni sem henni var falið.“

Gríman getur verið góð

Þorrablótin hafa löngum verið tækifæri fyrir fólk til að hittast. Það er vitaskuld ekki hægt núna þótt líklegt sé að einhverjir muni hittast til að horfa á blótið saman. „Við tókum upp annálinn og sýnum hann endurgjaldslaust til að fólk geti horft heima hjá sér. Við hvetjum Reyðfirðinga til að fara eftir sóttvarnareglum og koma ekki fleiri en 20 saman.

Gríman getur líka komið að góðum notum ef þú ert að hlægja að einhverjum sem er í hópnum þínum, hún kannski kemur í veg fyrir að það sjáist að þú sért að hlægja.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.