Ratcliffe ekki lengur ríkasti Bretinn

Jim Ratcliffe, landeigandi í Vopnafirði og laxveiðiáhugamaður, er ekki lengur ríkasti Bretinn. Eignir hans hafa þó vaxið hratt á stuttum tíma.

Í nýjum lista Sunday Times yfir ríkustu Bretana, sem birtur var um helgina, er Ratcliffe í þriðja sæti en hann vermdi það efsta fyrir ári. Eignir hans eru metnar á 18,15 milljarða punda, eða rúma 2880 milljarða króna – eða þrjár billjónir. Til samanburðar má nefna að tekjur íslenska ríkisins í ár eru áætlaðar rúmir 890 milljarðar.

Í fyrsta sætinu eru Sri og Gopja Hinduja, sem eiga einn stærsta bílaframleiðanda Indlands og David og Simon Reuber, sem hagnast hafa á fasteignaviðskiptum og vinnslu málma í Rússlandi, eru í öðru sæti.

Eignir Ratcliffe minnka um tæpa þrjá milljarða punda á milli ára, en hafa þó meira en fjórfaldast frá árinu 2016 þegar Bretar samþykktu útgöngu úr Evrópusambandinu. Ratcliffe var meðal þeirra sem beitti sér fyrir henni. Þrátt fyrir það spurðist það út í febrúar að hann ætlaði að flytja heimili sitt frá Bretlandi til Mónakó til að forðast lögsögu breskra skattayfirvalda.

Ratcliffe, sem á hlut í allt að 40 jörðum á Austur- og Norðausturlandi, einkum í Vopnafirði, hefur verið talsvert í enskum fjölmiðlum síðustu misseri. Hann keypti nýverið hjólalið Sky og endurnefndi það eftir fyrirtæki sínu Ineos. Meðal liðsmanna er Chris Froome, þrefaldur sigurvegari Tour de France. Þá hefur Ratcliffe sýnt áhuga á knattspyrnuliðinu Chelsea.

Umdeild umhverfisáhrif

Ekki eru þó allir hrifnir af starfsemi efnafyrirtækisins Ineos og mótmælendur létu heyra í sér þegar liðið fór af stað í Jórvíkurhjólreiðunum. Þeir hafa einkum gagnrýnt fyrirtækið fyrir að beita tækni sem kallast á ensku „fracking.“ Hún gengur út á að dæla lofti niður í jörðina undir miklum þrýstingi til að vinna gas.

Til þessa þarf gríðarlegt magn af vatni, auk þess sem grunur er um að aðgerðirnar hafi framkallað jarðskjálfta. Í nýlegu viðtali við breska ríkisútvarpið sakaði Ratcliffe mótmælendur um að hundsa niðurstöður vísindafólks sem sýnt hefði fram á skaðleysi vinnslunnar.

Hann hvatti fólk til að horfa til Bandaríkjanna þar sem vinnsla gassins hefði bætt sjálfstæði landsins í orkumálum auk þess sem það hefði skotið stoðum undir dreifðar byggðir sem byggst hefðu upp á námavinnslu og frumframleiðslu. Í viðtalinu sakaði Ratcliffe breska ráðamenn að sjá ekki mikið út fyrir miðborg Lundúna.

Viðtalið var tekið upp í tilefni af kynningu hjólreiðaliðsins. Staðsetningu kynningarinnar var haldið leyndri til að forðast mótmælendur.

Þá var í byrjun árs tilkynnt um að nýrri verksmiðju Ineos, sem verður stærsta jarðefnaverksmiðja Evrópu, hafi verið valinn staður í Antwerpen í Belgíu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.