Rambar oft óvart á fallega staði í leit að myndefni

Dagný Steindórsdóttir heldur þessa dagana sína fyrstu ljósmyndasýningu í kaffihúsinu Hjáleigunni að Bustarfelli. Myndirnar tók Dagný á fyrri hluta ársins í náttúrunni í kringum Vopnafjörð.

„Ég er að vinna með mitt nærumhverfi, náttúruna í kringum Vopnafjörð. Hér eru margir staðir sem ég rambaði óvart á eða vissi ekki um fyrr en nýlega,“ segir Dagný.

Hún er uppalinn Vopnfirðingur sem lærði fatahönnun í Bandaríkjunum. Meðan því stóð tók hún valáfanga í ljósmyndun. Að námi loknu flutti hún aftur heim til Vopnafjarðar og fór þá að fara út með myndavélina á nýjan leik eftir stutt hlé.

„Mér finnst gaman að mynda landslag. Ég hef alltaf verið smá náttúrubarn og haft gaman af að vera úti. Þegar ég var að vinna að þessari sýningu hvatti það mig til að fara og skoða staði sem ég hafði ekki farið á áður og skoða kunnuga staði á nýjan hátt,“ segir Dagný.

Spurð um hennar uppáhaldsstaði í kringum Vopnafjörð bendir hún á Sandvík. „Ég enda mjög oft þar. Ég hef verið þar á kvöldin, um miðjan dag, um hávetur og sumar.“

Sýningin opnaði í byrjun ágúst og stendur fram á fimmtudag. Dagný er ánægð með viðbrögðin sem hún hefur fengið við myndunum.

„Ég hef heyrt mikið frá Vopnfirðingum að þeir séu hrifnir af myndunum mínum. Mér finnst gaman að heyra að fólk hafi farið hingað upp eftir til að skoða þær.

Ég hef stundum talað mig frá því að halda sýningu, það sé vesen, kosti peninga og svo framvegis en nú ákvað ég að láta slag standa. Hingað til hef ég ekkert fengið nema hrós.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.