Orkumálinn 2024

Púsluspil að gera leikrit úr söngleiknum Mamma Mia!

Djúpið, leikfélag Verkmenntaskóla Austurlands, frumsýnir í kvöld söngleikinn Mamma Mia! í Egilsbúð í Neskaupstað. Leikstjórinn segir nokkurt púsl hafa verið að setja á fjalirnar leikrit sem innihaldi fleiri tónlistaratriði heldur en leikna þætti en allt sé tilbúið til frumsýningarinnar.

„Þetta hefur gengið vel þótt það hafi verið púsluspil að setja saman leikrit og söngleik. Það eru 27 tónlistaratriði í verkinu en bara 25 leiknar senur og í sumum þeirra er mjög lítið talað,“ segir Þorfríður Soffía Þórarinsdóttir, leikstjóri.

Söngleikurinn Mamma Mia! var fyrst sýndur árið 1999. Eftir honum hefur síðan verið gerð vinsæl kvikmynd, sem nú er komið framhald af auk þess sem söngleikurinn hefur verið settur upp víða um heim við miklar vinsældir, meðal annars í Borgarleikhúsinu. Höfundur leikgerðar og þýðandi verksins er Þórunn Edda Clausen.

Verkið byggir á tónlist sænsku hljómsveitarinnar ABBA en sögusviðið er annars grísk eyja þar sem mæðgurnar Sofie og Donna undirbúa brúðkaup Sofie. Hún veit ekki hver faðir hennar er en kemst að því í dagbók móður sinnar að þrír karlmenn koma til greina og býður þeim öllum.

„Fólk þekkir bíómyndina en þetta er mjög hresst og skemmtilegt leikrit,“ segir Þórfríður Soffía.

„Við höfum aðeins breytt handritinu og fært til nútímans því það voru mun fleiri stelpur en strákar í leikarahópnum,“ bætir hún við en harðneitar að upplýsa í hverju sú breyting flest.

Frumsýningin verður í kvöld klukkan 20:00 en alls eru fyrirhugaðar sex sýningar á verkinu næstu tvær vikur. Leikstjórinn segir talsverðan áhuga í Neskaupstað á uppfærslunni.

„Það koma margir að sjá verk þegar skólar setja upp og að vera með hljómsveit dregur enn fleiri að. Það hefur líka verið uppvakning í leiklist í Neskaupstað síðustu ár.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.