Prufa leikara fyrir atvinnuleikhússýningu

Um helgina fara fram prufur fyrir leiksýninguna Hollvættur á heiði í Sláturhúsinu á Egilsstöðum en leikverkið verður frumsýnt þar í haust. Um atvinnuleiksýningu er að ræða sem jafnframt verður formleg opnunarsýning leiklistarsalar hússins.

„Við erum að leita að fólki í þrjú miðlungsstór karlhlutverk og svo 5-6 manns í önnur hlutverk. Það koma þrír atvinnuleikarar með hópnum en síðan bætast við átta hlutverk héðan,“ segir Ragnhildur Ásvaldsdóttir, sláturhússtjóri.

Þór Túliníus hefur samið verkið sem sett er upp af leikhópnum Svipum. Sami hópur, með Þór sem leikstjóra, setti upp verk um Sunnefu Jónsdóttur sem frumsýnt var í Sláturhúsinu haustið 2020. Ágústa Skúladóttir leikstýrir sýningunni nú.

Samið sérstaklega fyrir Sláturhúsið


Verkið byggir á sögnum af Austurlandi um vætti á heiðum en náttúra svæðisins er einnig nýtt sem bakgrunnur. Ragnhildur segir að um stórt verkefni sé að ræða fyrir Sláturhúsið sem sé í fyrsta sinn framleiðandi að leikverki. Það endurspeglast meðal annars í fjórða hæsta styrknum, 19 milljónum, úr Sviðslistasjóði.

„Það sýnir mikið traust í okkar garð því 10% þeirra verkefna sem sækja um fá styrk. Síðan höfum við fengið styrki frá sjóðum hér eystra.

Þetta verkefni er okkur einstaklega mikils virði. Okkur finnst gaman að opna sviðslistasalinn formlega með stóru, metnaðarfullu verkefni sem sérstaklega er skrifað fyrir okkur, þótt við bindum vonir við að hægt verði að setja það upp víðar í framhaldinu,“ segir Ragnhildur.

Lipurð og söngur


Æfingar hefjast í lok ágúst og er frumsýning áætluð síðustu helgina í október. Handritið er tilbúið en í sumar verður unnið í leikmynd, brúðugerð og öðrum undirbúningi.

Austfirskir leikarar hafa til þessa, með örfáum undantekningu, sett upp sýningar í sjálfboðavinnu. Hollvættur á heiði er hins vegar atvinnusýning sem þýðir að allir sem koma að sýningunni fá greitt fyrir vinnu sína. Nokkrir Austfirðingar koma að sýningunni, Hlín Behrens frá Egilsstöðum verður tónlistarstjóri og Tessa Rivarola á Seyðisfirði kemur að brúðustjórnun.

Prufurnar verða á morgun og er enn tekið við umsóknum á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. auk þess sem hægt er að mæta í Sláturhúsið klukkan 13:00 á morgun. Í tilkynningu segir að leitað sé að fimum leikurum, 13 ára og eldri. Reynsla úr dansi eða fimleikum er sögð góð en í verðandi leikarar þurfa að syngja í prufunni og geta valið úr Maístjörnunni, Kvæðinu um fuglana, Vorið kemur og Ef ástin er hrein.

„Þetta eru hlutverk sem krefjast samhæfingar í hreyfingum. Þau geta verið stór á sviði þótt þau séu ekki mikil í texta. Tónlistin í verkinu er sérsamin. Það þurfa ekki allir söngvarar að geta sungið einsöng heldur geta sungið bakraddir.“

Ragnhildur segir ágætis ásókn vera í prufurnar þótt fjölmarga unglinga vanti á svæðið vegna landsmóts félagsmiðstöðva um helgina. Til greina kemur að halda aðrar prufur síðar takist ekki að manna hlutverkin um helgina.

Frá uppsetningu Svipa á Sunnefu. Mynd: Tara Tjörvadóttir

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.