Pólska listamenn skortir tækifæri til að sýna verk sín þrátt fyrir að búa á Íslandi

Pólska listahátíðin Vor eða Wiosna var formlega sett í Sláturhúsinu á Egilsstöðum um síðustu helgi en hún stendur út föstudag. Wiola Ujazdowska, sýningarstjóri segir marga pólska listamenn hafa flust til Íslands, meðal annars því tjáningarfrelsi í fæðingarlandinu sé sífellt að þrengjast, en þeir hafi takmörkuð tækifæri til að sýna verk sín hérlendis.

Wiola, hver er hugsunin á bakvið þessa sýningu?
Hún er að sýna verk pólskra listamanna sem búa á Íslandi. Þótt við búum hér og tökum þátt í íslensku samfélagi fáum við ekki það oft tækifæri til að sýna verk okkar.
Hugmyndin var að stefna saman fjölbreyttum hópi listamanna sem fæst við ólík viðfangsefni og notar mismunandi tækni. Hér höfum við gott rými þar sem við getum bæði hist og sýnt verkin. Við viljum bæði sýna Íslendingum verkin okkar en líka Pólverjum því við vitum að þeir eru margir hér eystra.

Eru einhverjir Austfirðingar í hópnum?
Já, Agnieszka Sosnowska ljósmyndari býr hér á Fljótsdalshéraði. Annars búa flestir listamannanna á svæðinu frá Reykjavík að Vík í Mýrdal.

Eru margir pólskir listamenn búsettir á Íslandi?
Þeir eru nokkuð margir. Það flytja margir frá Póllandi, bæði út af efnahagsástandinu en ekki síður út af stjórnmálunum. Mörg okkar sem hafa farið í gegnum stærstu listaháskóla Póllands og tekið þátt í alþjóðlegum sýningum, eins og til dæmis ég sem hef sýnt í Bandaríkjunum, eru samt ekki þekkt innan íslensku listasenunnar.

Geta pólskir listamann á Íslandi haft listina að atvinnu?
Almennt eru íslenskir listamenn líka í dagvinnu og það sama gildir um okkur, sem er þó engin óskastaða þegar þú átt margra ára nám að baki. Ég er ein hinna heppni, ég starfa líka sem sýningarstjóri. Þú þarft fjölhæfni til að starfa sem listamaður.

Hafa verið haldnar fleiri sérpólskar listsýningar eins og þessi? Hvernig gengur pólskum listamönnum að komast að í íslenskum galleríum?
Í fyrra var sambærilegt verkefni í Kópavogi. Það var í í raun samsýning íslenskra og pólskra listamanna en það sem er sérstakt við þessa sýningu er að hér eru bara pólskir listamann. Það virðist sem þeir sem ekki nema í Listaháskóla Íslands eigi erfiðra með að komast inn í íslensku listasenuna. Því miður haldast tækifærin hér ekki í hendur við reynslu eða menntun, en það er svo sem vandamál listaheimsins alls.

Mér finnst að sérstaklega opinberar menningarstofnanir, í hvaða landi sem þær starfa, eigi að gæta þess að sýna ólíkar raddir úr samfélaginu. Það má ekki bara sýna verk eftir listamenn úr höfuðborginni og jaðarsetja listamenn af landsbyggðinni eða vera bara með heimafólk og útiloka innflytjendur og svo framvegis. Opinber stofnun verður að endurspegla samfélagið og ólíkar raddir í því.

Hvað varðar pólska listamenn þá skortir þá tækifæri á Íslandi. Því erum við svo ótrúlega þakklát að fá að sýna verk okkar hér.

Þú nefndir að listamenn yfirgæfu Póllandi út af stjórnmálaástandinu. Fá þeir meira frelsi hér?
Sannarlega. Ríkið er á móti samfélagi hinsegin fólks. Ef þú ert femínisti eða ekki á hægri væng stjórnmálanna þá hefurðu takmarkað tjáningarfrelsi, sérstaklega í listum. Það hefur verið mikil ritskoðun í landinu. Á sýningunni hér eru pólitísk verk sem erfitt yrði að sýna í Póllandi.

Er mikið um að pólskir listamenn yfirgefið landið til að geta stundað list sína?
Já, það er töluverður fjöldi á hinum Norðurlöndunum, Bretlandi og Þýskalandi. Efnahagsástandið spilar líka inn í en það er sannarlega hópur listafólks sem hefur flutt út af skertu tjáningarfrelsi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.