Orkumálinn 2024

Pólar festival: Þú ert þinn eigin aðgöngumiði

Listahátíðin Pólar verður haldin á Stöðvarfirði í þriðja sinn um helgina. Mikið er lagt upp úr matargerð á hátíðinni og hráefni sótt í nærumhverfið. Eldamennskan er líka tækifæri fyrir þátttakendur að kynnast hver öðrum.


„Að elda saman er skemmtileg leið til að kynnast fólki um leið. Það er fegurð því þegar allir eru að flysja kartöflur og búa til sósu,“ segir Gígja Sara Björnsson, einn skipuleggjenda hátíðarinnar.

Hátíðin var fyrst haldin árið 2013 en hún spratt upp úr bæjarhátíð sem Stöðfirðingar nefndu Maður er manns gaman. Þar var meðal annars í boði sjósund og rabbarabaraveisla sem enn er við lýði.

Yfir helgina eru síðan margvíslegir listviðburðir í boði, ljóðaupplestur, myndlist, brúðuleikhús, gjörningar, miðnæturtónleikar í kvöld og tónleikadagskrá annað kvöld.

Matarmenningin er hins vegar það skilur Pólar frá mörgum öðrum listahátíðum en notaður er fiskur úr firðinum og tíndar jurtir úr brekkunni til að elda úr. Þá hefur verið safnað hráefni frá nærliggjandi stöðum sem annars hefði verið á leið í tunnunni. „Við erum með fullt af tómötum og kartöflum núna sem við erum að velta fyrir okkur hvernig við nýtum“ sagið Gígja þegar Austurfrétt heyrði í henni.

Nýtnin á hráefnunum er hluti af hugsun Pólar að gera sem mest fyrir sem minnsta peninga. „Við reynum að vera eins peningalaus og við getum. Það borgar sig enginn inn og engum borgað fyrir að koma fram þótt við reynum að koma á móts við ferðakostnað. Þannig fáum við fólkið sem virkilega vill vera hérna.

Það taka allir þátt. Þú ert þinn eigin miði og bograr þig inn með að gera það sem þú kannt eða langar til. Þannig taka líka allir ábyrgð á hátíðinni og það verður eitthvað fallegt til úr því þar sem allir vilja gera sitt besta.“

Þannig verður á morgun slegið upp grillveislu með fiski, krydduðum með stöðfirskum jurtum sem borinn er fram á rabarbarablöðum.

Sköpunarmiðstöðin á Stöðvarfirði spilar stórt hlutverk í hátíðinni en þar er meðal annars sett upp kaffihús. Við hliðina er þungamiðja hátíðarinnar í Hjartanu, gömlum bankakjallara.

„Við vorum að byggja upp aðstöðu þar á hátíðinni 2015, smíðuðum stóla úr gömlum við og bjuggum til ofn. Núna erum við búin að setja upp útieldhús.“

Af öðrum viðburðum helgarinnar má nefna 100 ára afmælishátíð Ungmennafélags Borgarfjarðar. Dagskráin hefst klukkan 14:00 á morgun með skrúðgöngu á íþróttavellinum og leikjum og fjöri. Um kvöldið klukkan 20:00 verður afmælismatur og fögnuður með ræðumönnum og tónlistaratriðum þar sem heimamaðurinn Magni verður í broddi fylkingar.

Af sömu slóðum má benda á árlega sumarmessu í Klyppsstaðarkirkju í Loðmundarfirði klukkan tvö á sunnudag. Séra Vigfús Ingvar Ingvason þjónar.

Þá verður KK með tónleika í Valaskjálf í kvöld klukkan 21:00.
 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.