„Pönkáhugafólk á Austurlandi er þröngur markhópur“

Tónlistarhátíðin Austur í rassgati verður haldin í fjórða skiptið í Egilsbúð í Neskaupstað á laugardag. Til hátíðarinnar var upphaflega stofnað sem pönkhátíðarinnar en fleiri tónlistarstefnur fljóta þar orðið með. Heimasveitin DDT skordýraeitur stendur að baki hátíðinni en sveitin er nýkomin heim eftir frægðarför til Þýskalands.

„Þetta byrjaði sem pönkhátíð en við höfum síðan reynt að höfða til breiðari markhóps því pönkáhugafólk á Austurland er frekar þröngur markhópur.

Hugmyndin var að búa til vettvang fyrir austfirskar hljómsveitir og sjá fleira skemmtilegt að auki,“ segir Þorvarður Sigurbjörnsson, einn meðlima DDT skordýraeiturs.

Hans sveit er vitaskuld ein af austfirsku sveitunum fjórum. Að auki eru þar Dusilmenni, sem komust í úrslit Músíktilrauna í fyrra og Sárasótt frá Stöðvarfirði en þessar sveitir spila allar pönk eins og heitið á fyrstu smáskífu Sárasóttar „Jól, jól, helvítis jól“ ber með sér.

Ína Berglind Guðmundsdóttir úr Fellabæ verður yngst allra til að koma fram á Austur í rassgati en hún sigraði Söngvakeppni félagsmiðstöðva í vor. Tónlistarmaðurinn sem kemur að er Una Torfa, sem hún spilaði meðal annars á Bræðslunni í sumar.

Boðið að koma aftur til að spila í Þýskalandi


Samkvæmt eigin lýsingu er DDT skordýraeitur skipuð fjórum köllum á framhaldsskólaaldri. Meðalaldurinn er nokkuð hár og tónlistin eftir því. Á þessum gamals aldri náði sveitin þeim áfanga að spila erlendis í sumar, nánar til tekið í Goslar í Þýskalandi, ekki fjærri Hannover.

„Tilgangur ferðarinnar voru fyrst og fremst að þarna voru fjórir kennarar saman í skólaheimsókn. Þar sem þeir eru líka saman í hljómsveit voru hljóðfærin tekin með og haldnir tónleikar. Þeir voru haldnir í skólanum þar sem okkur var troðið upp á nemendurna.

Okkur var samt mjög vel tekið og eigum boð um að koma aftur næsta sumar, þá til að spila á tónleikastað í bænum,“ segir Þorvarður um ferðina.

Aðspurður segir hann áheyrendur lítið hafa skilið í hinum kjarnyrtu íslensku textum sveitarinnar en þó hafi verið hægt að koma einu lagi til skila á þýsku. „Það lag heitir Sexy Jesus. Textinn eru setningar úr Biblíunni. Pjetur St. Arason sótti þýska Biblíu og skrifaði upp versin fyrir textann. Það vakti extra lukku.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.