Plokkað fyrir Eyþór

Íbúar á Fljótsdalshéraði og aðrir velunnarar ætla að hittast í fyrramálið og plokka fyrir Eyþór Hannesson. Eyþór er frumkvöðull plokks á Íslandi en glímir nú við erfið veikindi.

Plokk sameinar sameinar holla hreyfingu og ruslatínslu úti í náttúrunni. Eyþór hefur á undanförnum árum lagt mikið á sig við að fjarlægja rusl og fegra nærumhverfi sitt. Hann hefur vakið fyrir það athygli um allt land enda hafa afköstin verið ótrúleg og hann verið heiðraður fyrir framlag sitt til umhverfismála.

„Ólöf Sigurbjartsdóttir átti hugmyndina og kallaði saman nokkra aðila sem hafa verið virkir í hlaupasamfélaginu hér á Héraði til að koma þessu í kring. Við höfum fundið fyrir miklum áhuga á viðburðinum og allir sem við leitum til eru boðnir og búnir að aðstoða,“ segir Elsa Guðný Björginsdóttir, einn aðstandenda.

„Eyþór hefur gert svo mikið fyrir samfélagið, ekki bara með því að tína rusl sjálfur heldur líka með því að vekja okkur hin til umhugsunar um hvernig við göngum um og sýna fram á að allir geta lagt sitt af mörkum. Við viljum líka benda á að þó að við blásum til þessa viðburðar á laugardagsmorgun hér á Fljótsdalshéraði þá er hægt að ”plokka fyrir Eyþór” um allt land og hvenær sem er.”

Fyrirkomulagið verður á þann veg að þátttakendur mæta á einn af fyrirfram ákveðnum upphafsstöðum frá klukkan 10:00 á laugardaginn og greiða þátttökugjald að eigin vali.

Upphafsstaðirnir verða við Fellaskóla, Vonarland, Egilsstaðaskóla, leikskólann Skógarland, Níuna og Vallaveg (Dagsverk). Fólk gengur, skokkar eða hleypur þá leið og vegalengd sem það kýs og tínir rusl í leiðinni.

Klukkan 12:00 hittast þátttakendur við Níuna (Miðvang 1) þar sem boðið verður upp á léttar veitingar, tónlist og skemmtilegheit (fólk er hvatt til að grípa með sér fjölnota bolla að heiman).

Þar verður búið að koma upp flokkunaraðstöðu í boði sveitarfélagsins og sjá starfsmenn þess um að fjarlægja ruslið (einnig verður hægt að skilja rusl eftir á upphafsstöðunum).

Hægt verður að fá poka á upphafsstöðunum en það má líka koma með poka að heiman. Þá minna skipuleggjendur á gul vesti eða annan áberandi klæðnað svo þátttakendur sjáumst vel í umferðinni.

Fyrir þá sem ekki komast í plokkið en vilja styrkja málefnið hefur verið opnaður söfnunarreikningur sem Anna Hannesdóttir, systir Eyþórs, heldur utan um: 0370-13-005545, kt.120164-2019.

Nánari upplýsingar má finna á Facebook-viðburðinum Plokkað fyrir Eyþór.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.