Orkumálinn 2024

Helgin; „Okkur langar að endurvekja þennan gamla dag“

„Þarna verður allt mögulegt boðið upp, kannski koma menn með eitthvað með sér, auk þess sem eitthvað hefur verið tínt til héðan af staðnum og af næstu bæjum,“ segir Skúli Björn Gunnarsson, foröstðumaður Gunnarsstofnunar á Skriðuklaustri um uppboð sem haldið verður á Fljótsdalsdeginum á sunnudaginn.


Árlegur Fljótsdalsdagur Ormsteitis verður haldinn á sunnudaginn og þá fyrirtæki og þjónustuaðilar í Fljótsdal bjóða gesti velkomna og efnt verður til ýmiskonar skemmtunar.

Fyrir hádegi verður boðið upp á skoðunarferðir inn í Fljótsdalsstöð, í innigarðinn í Hænsnakofanum á Valþjófsstað og á verkstæði Skógarafurða á Víðivöllum. Þá verður gengið með sérfræðingum frá Snæfellsstofu að kíkja á heimahreindýrin í skóginum á Skriðuklaustri og þeir sem vilja fara í lengri gönguferð geta farið í Fossagöngu frá Laugarfelli. Tilboð verður á sýningu og súpu í Óbyggðasetrinu.

Á Skriðuklaustri verða hlaðborð að venju í hádegi og síðdegi. Þar hefst dagskráin kl. 13.30 með guðsþjónustu beggja siða á rústum klausturkirkjunnar. Sultukeppni verður endurvakin, lengsta rabarbaralegg Héraðsins verður leitað og fleira.

Fólk hvatt til að klæða sig upp
Þess verður svo minnst að 70 ár eru liðin frá því að Gunnar skáld flutti frá Skriðuklaustri og af því tilefni verður efnt til uppboðs á gömlum munum við Gunnarhús í anda „aksjónar“ sem haldin var haustið 1948. Ágóðinn mun renna óskiptur til Pieta samtakanna.

„Það hefur lengi staðið til að minnast þessa með uppboði, eða „aksjóni“ eins og það var kallað í gamla daga. Þetta var mikið og minnistætt uppboð sem sumir segja að hafi staðið í tvo daga, en þar voru seldir mörghundruð gripir, allt frá naglapökkum upp í traktor,“ segir Skúli Björn, sem vill hvetja gesti til þess að mæta í klæðnaði frá árunum 1940-1960, auk þess sem húsbandið leikur fyrir dansi á staðnum.

„Okkur langar að endurvekja þennan gamla dag þegar uppboðið var haldið og vel getur verið að ég laumi einhverjum glaðningi að fólki sem mætir í fötum frá þessum tíma.“

Ágóði uppboðsins rennur til Pieta samtakanna
Allur ágóði af uppboðinu rennur til Pietasamtakanna, samtaka gegn sjálfsvígum. „Samtökin urðu fyrir valinu vegna þess að okkur finnst það vera eitt af þessum málefnum sem eru vakandi í dag og ekkert samfélag er undanskilið. Geðheilbrigðismál og andleg líðan virðist ekki heldur vera í hæstu hæðum á Austurlandi og hafa samtökin komin sterk inn í umræðuna á síðustu misserum.“


Útsæðið á Eskifirði
Útsæðið, bæjarhátíð Eskfirðinga, hófst í gær og stendur alla helgina. Frétt um hana má lesa hér.

Hamell on Trial á Havarí
Ed Hamell, sem kemur fram undir sviðsnafninu Hamell on Trial, er þekkt vörumerki í neðanjarðar og andspyrnusenunni vestan hafs hvar hann hefur verið lengi að og unnið með tónlistarmönnum á borð við Mike Watt, Ani di Franco og Henry Rollins. Rætur Hamells liggja í síðpönkinu en hann sækir líka mikið í ýmsa aðra strauma bandarískrar tónlistarhefðar. Hann verður með tónleika í Havarí á sunnudaginn.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.