Orkumálinn 2024

Ogano orðinn sýnilegri en áður – Myndband

Breski togarinn Ogano, sem liggur á botni Stöðvarfjarðar, er orðið sýnilegra en áður að sögn áhugamanns um skipsflök. Hann segir að svo virðist sem aðrir en Stöðfirðingar þekki lítið til Ogano sem tvívegis þjónaði sem herskip.

„Ég hafði lengi vitað af honum og hugsað mér að fara með flygildið yfir hann en lét aldrei verða af því. Það þarf góðar aðstæður til að ná góðum myndum.

Svo var það einn morguninn í byrjun mars sem ég var á leið norður til Akureyrar að þessar aðstæður voru þegar ég kom inn í Stöðvarfjörð, logn og spegilsléttur sjór.

Mér fannst mjög gaman að sjá hann, enda hef ég mikinn áhuga á svona flökum. Ég hugsa að ég hafi stoppað í um klukkutíma. Veðrið var svo gott að rafhlöðurnar í flygildinu entust í þann tíma sem framleiðandinn gefur upp,“ segir Guðmundur Már Karlsson frá Djúpavogi sem nýverið birti myndband sem hann tók af flaki Ogano.

Við bættist að togarinn sýndi sínu bestu hliðar. „Árið 2016 tók Björgvin Valur Guðmundsson myndir af honum. Þá var togarinn allur út í þara, eiginlega eins og en klessa. Mig langaði ekki að mynda hann þannig. Nú hittist vel á, hann virðist hafa hreinsað sig í vetur og er núna nánast bert stál þannig það sést vel á hann,“ segir Guðmundur.

Margir með áhuga

Myndbandið fór víða, yfir 5000 manns hafa horft á það og er það vinsælasta sem Guðmundur Már hefur birt. „Það sem mér fannst merkilegast er hvað þetta kom mörgum á óvart. Það virðast ekki margir hafa vitað af honum.“

Það kann að vera því togarinn er ekki sýnilegur frá landi. Skuggann af honum má þró greina sé vel rýnt í myndir af Stöðvarfirði á Google Earth. Stöðfirðingar þekkja þó ágætlega til Ogano, enda skipsbjalla hans í áratugi notuð sem skólabjalla þar.

Tók þátt í báðum heimsstyrjöldunum

Sögu Ogano virðist mega rekja aftur til ársins 1917 þegar hann smíðaður í Hull, sjósettur 17. maí það ár, 38 metra langur og 6,7 metra breiður. Hann tilheyrði flokki bryntogara sem eru skip smíðuð til fiskveiða sem einnig má nota í hernað. Þau eru sterkbyggð og almennt með stærra þilfari en veiðiskipin en þegar þau eru gerð út í stríð er trollinu skipt út fyrir tundurduflaslæðara.

Breski sjóherinn notaði Ogano í báðum heimsstyrjöldunum. Í fyrra stríði hét hann Hugh Black, fyrst eftir það, þá kominn til veiða, Macbeth áður en hann hlaut Ogano-nafnið sem fylgdi honum þar til honum var siglt upp í Stöðvarfjörð 24. apríl 1950.

Aldrei aftur á flot

Í frétt Morgunblaðsins daginn eftir er greint frá því að togarinn hafi verið á veiðum við Austurhorn þegar hann tók niður á skeri. Upphaflega ætlaði áhöfnin að sigla til Seyðisfjarðar í viðgerð en lekinn ágerðist og fékkst þá leyfi til að renna honum upp á land í Stöðvarfirði. Sautján skipverjar fengu inni hjá símstöðvarstjóranum þar.

Fyrst var áformað að dæla vatni úr skipinu og bjarga honum en að lokinni skoðun var ekki talið svara kostnaði að bjarga togaranum en hann var þá í eigu útgerðar í Hull. Það grófst því niður í fjörðinn en það er um 200-300 metra frá landi í botni fjarðarins.

Lengi vel stóðu möstur togarans og stýrishús upp úr sjónum. Guðmundur Már kveðst hafa heyrt sögur frá Stöðfirðingum um að þeir hefðu notað stýrishúsið sem skýli á fuglaveiðum. Þetta hafi síðan brotnað niður á hafísárum í kringum 1968.

Í jólablaði Austra frá árinu 1996 er viðtal við Kristinn B. Helgason sem segir frá því að Sigurður Jónsson frá Höskuldsstöðum í Breiðdal hafi reynt að koma Ogano aftur á flot en ekki gengið. Kristinn rifjar einnig upp á Stöðfirðingar hafi náð heilmiklum verðmætum úr togaranum, meðal annars 40 tonnum af kolum.

Gott svæði til köfunar

En Guðmundur lét sér ekki að duga að fljúga yfir Ogano heldur fór nýverið aftur í Stöðvarfjörð ásamt þremur félögunum sínum. Þeir köfuðu niður að flakinu en Guðmundur lét sér nægja að svamla í yfirborðinu.

„Ég náði að setja lappirnar niður á hann og standa á honum. Ég hugsa að þetta séu 1,4 metrar frá sjávarborðinu niður á hæsta punkt. Síðan reikna ég með að niður á botn séu fimm metrar. Síðurnar eru dálítið grafnar í sandinn en stefnið og skrúfan standa upp úr.

Þetta er ágætt svæði til köfunar. Það þarf að svamla út fjörðinn að flakinu og það getur tekið á ef það er straumur en á ekki að vera teljandi mál fyrir fullfrískan einstakling. Mér finnst skrýtið að ekki hafi verið kafað meira þarna, að ég best veit er El Grillo sem kafarar hafa verið að skoða hér eystra.“



Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.