Öllum heiminum boðið í lifandi leiðsögn um klausturrústirnar

Hverjum sem er, hvar sem er, gefst á morgun tækifæri á að njóta leiðsagnar um rústir klaustursins að Skriðu í Fljótsdal. Bæði verður um lifandi leiðsögn beint af svæðinu að ræða sem og sýndarveruleika.

„Við ætlum að gera tilraun með beina útsendingu frá minjasvæðinu. Við sendum hins vegar ekki bara út héðan, heldur fer hún í gegnum myndstjórn samstarfsaðila okkar í St. Andrew‘s háskóla í Skotlandi.

Til viðbótar við það sem ég segi blöndum við inn því við sem við höfum verið að gera, svo sem munum í þrívídd og byggingunum í sýndarveruleika. Við munum því fara með áhorfandann inn í sýndarveruleika um leið og hann gengur með mér um svæðið,“ segir Skúli Björn Gunnarsson, forstöðumaður Gunnarsstofnunar á Skriðuklaustri.

Gunnarsstofnun er meðal þátttakenda í Cine-verkefninu sem gengur um að koma ýmsum menningararfi úr Norður-Evrópu í stafrænt form. Stefnt er að vikulegum útsendingum frá nokkrum af burðarásum verkefnisins á næstu vikum og verður útsendingum frá Klaustri sú fyrsta í röðinni.

Sent verður út frá Klaustri í gegnum Zoom-fjarfundaforritið og verður útsendingunni þaðan varpað áfram á Facebook. Leiðsögnin hefst klukkan 13:00 á morgun og verður aðgengileg í gegnum Facebook-síðu Skriðuklausturs. „Þetta verður aðgengilegt öllum heiminum.“

Auk Skúla Björns mun Alan Miller, prófessor við St. Andrew‘s háskóla, segja frá og sýna hvað þeir hafa gert við muni sem fundust í uppgreftrinum á Skriðuklaustri. Þeir hafa meðal annars tekið hauskúpur og teiknað upp í þrívídd. Í lokin verður síðan opnað fyrir spurningar frá þeim sem fylgjast með.

Og svo er að vonast til að sólin skíni áfram á minjasvæðið og netsambandið verði tryggt. „Við sendum þetta út frá síma á svæðinu í gegnum 4G. Það voru ekki hnökrar í dag og verða vonandi ekki á morgun. Það verður örugglega skrýtið að leiðsegja bara fyrir símann, en maður fær viðbrögð með spurningunum í lokin.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.