Orkumálinn 2024

Oddfellowar bættu aðstandendaherbergi sjúkrahússins í Neskaupstað

Lagfæringum á aðstandendaherbergi Umdæmissjúkrahússins í Neskaupstað er nú lokið. Ráðist var í endurbæturnar á vegum Oddfellow-reglunnar á Austurlandi í tilefni af tíu ára afmæli hennar árið 2020.

Oddfellow-félagar á Austurlandi lögðu fram fjármagn úr styrktar- og líknarsjóði til að kosta endurbæturnar auk þess að leggja til vinnu. Þá fengu reglurnar til liðs við sig fyrirtæki sem komu að verkefninu, til dæmis með að veita afslátt af efni og húsgögnum. Einnig bárust verkefninu gjafir frá fyrirtækjum og reglusystkinum.

Herbergið er ætlað aðstandendum sjúklinga sem dvelja á sjúkrahúsinu í lengri eða skemmri tíma, hvort sem er á hjúkrunar- eða sjúkradeild. Endurbæturnar fólu í sér allsherjar lagfæringu á aðstöðunni auk endurnýjunar á innanstokksmunum og húsgögnum. Herbergið var formlega afhent sjúkrahúsinu nú í byrjun nóvember.

Umdæmissjúkrahús Austurlands í Neskaupstað þjónar íbúum frá Djúpavogi til Vopnafjarðar, auk annarra sem sækja Austurland heim. Sjúkrahúsið hefur þjónað Austfirðingum frá árinu 1957 eða í um 65 ár.

Á starfssvæði sjúkrahússins búa tæplega 11 þúsund manns og akstursvegalengd frá þeim þéttbýliskjarna sem lengst þarf að fara eru tæpir 200 km. Í tilkynningu frá reglusystkinum í Oddfellowreglunni á Austurlandi segir að það sé ósk þeirra að herbergið þjóni tilgangi sínu vel.

Frá afhendingu herbergisins. Fyrir hönd sjúkrahússins tóku þau Borghildur Fjóla Kristjánsdóttir og Jón H. H. Sen við því. Fulltrúar frá Oddfellow-stúkunum voru þau Einar Ólafsson, Þórunn Guðgeirsdóttir, Kristín Þorvaldsdóttir, Ólafur Áki Ragnarsson og Guðjón Magnússon. Mynd: Björn Marinó Pálmason.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.