Nýtt kynningarmyndband fyrir Austurland frumsýnt: Vildum fanga hráleikann

Nýtt kynningarmyndband fyrir áfangastaðinn Austurland var frumsýnt á ferðasýningunni Mannamótum í morgun en það markar upphaf nýrrar auglýsingaherferðar. Verkefnastjóri segir fyrstu viðbrögð jákvæð og vonir séu uppi um að myndbandið fái mikla dreifingu.

„Það hefur aldrei áður verið gert heildstætt myndband um allt svæðið. Það er ekki lögð áhersla á 1-2 fyrirtæki eða staði og það er ekkert víst að fólk kveiki á hvaðan skotin eru, þótt flestir heimamanna geri það eflast,“ segir María Hjálmarsdóttir, verkefnastjóri hjá Austurbrú.

Myndbandið er eins konar örsaga sem lýsir upplifun aðkomumanneskju af svæðinu í máli og myndum og gefur áhorfendum innsýn inn í landshlutann.

Það er framleitt og tekið upp af Sebastian Ziegler, sem meðal annars kom að gerð heimildamyndarinnar 690 Vopnafjörður, leikstjóri var Henrk Dyb Zwart og aðalhlutverkið er í höndum Nönnu Juelsbo, sem býr á Seyðisfirði.

„Sebastian hefur búið á Austurlandi og unnið á svæðinu. Við höfum aldrei lagt jafn mikla vinnu í handrit myndbands eða fá rétta fólkið til að ná helstu einkennum fram. Þetta fangar vel vinnuna sem við höfum lagt í og viðbrögðin sem við höfum fengið eru jákvæð og að þetta falli vel að þeirri ímynd sem við höfum verið að skapa okkur,“ segir María.

„Myndbandið er ekki klisjukennt heldur vildum við fanga hráleikann. Söguhetjan upplifir Austurland alein en kynnist fólki á ferðalaginu. Það sýnir líka að Austurland sé öruggt fyrir ungar konur og hægt sé að koma á veturna til að upplifa svæðið.“

María segir háleit markmið vera um dreifingu myndbandsins. Í bígerð eru fleiri myndbönd til að fylgja þessu eftir sem verða sérhæfðari. „Við erum með auglýsingastofu með okkur í vinnunni sem búin er að fara yfir okkar markhópa og sett upp herferðir sem byggja á þeim.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.