Nýtt fólk að baki Skaftfell bistro

Þau Garðar Bachmann Þórðarson, Eva Jazmin Servena, Hjörvar Vífilsson, Sóley Guðrún Sveinsdóttir og Sesselja Hlín Jónasardóttir hafa í sameiningu tekið við rekstri Skaftfell bistro, veitingastaðar í kjallara menningarmiðstöðvarinnar Skaftfells á Seyðisfirði. Garðar og Sesselja hafa sterka tengingu við húsið sem gefið var af afa þeirra og ömmu, Garðari Eymundssyni og Karólínu Þorsteinsdóttur.

„Húsið var áður smíðaverkstæði afa. Við lékum okkur bæði hér í kjallaranum og á efri hæðum. Eftir að húsið var gefið þá hjálpuðu foreldra mínir til við að gera það upp fyrir gallerí,“ segir Garðar.

„Afi smíðaði til dæmis barinn það er gaman að halda í hann. Þegar við heyrðum að reksturinn væri laus til umsóknar þá hringdi ég í Garðar frænda því það hefur lengi verið draumur okkar að taka við bistróinu. Við ákváðum síðan að sækja um það sem hópur,“ segir Sesselja.

Þau opnuðu staðinn í byrjun maí. Nokkrar breytingar hafa orðið bæði á innanstokksmunum og matseðli. Stærsta breytingin er að ekki er lengur stigi upp í sýningarsalinn á miðhæðinni sem veitir meira rými á báðum stöðum. Í kjallaranum hefur svæðið einnig verið opnað, málað og fleira gert. Ýmsir fastir liðir svo sem hornið sem kennt er við Dieter Roth og listsýningar á Vesturveggnum verða áfram á sínum stað.

Hvað matseðilinn varðar hafa pizzurnar vikið að sinni. „Þegar við sóttum um tókum við fram að við vildum hafa staðinn opinn allt árið. Við erum með breytilegan matseðil, eftir því hvaða hráefni er ferskt hverju sinni. Við ætlum að vera með meiri fisk. Ég er búinn að vera kokkur á Gullveri síðustu tvö ár þannig að ég nýti lærdóminn þaðan,“ segir Garðar.

„Staðurinn er hugsaður fyrir heimafólk, aðrir gestir sem koma eru plús. Við ætlum að bera fram góðan, heiðarlegan mat. Við horfum líka mikið í hvaða hráefni við fáum héðan af Austurlandi,“ bætir Sesselja við.

Sesselja, Eva, Garðar, Hjörvar og Sóley við barinn í Skaftfell bistro. Mynd: Aðsend

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.