Orkumálinn 2024

„Nú hef ég fleiri tilefni til að halda góð partý“

Hildur Karen Sveinbjarnardóttir frá Seyðisfirði hefur verið áberandi að undanförnu sem eitt af andlitunum í landssöfnun Krafts, stuðningsfélags ungs fólks sem greinst hefur með krabbamein. Hildur Karen greindist með bráðahvítblæði í nóvember 2016, þá 31 árs gömul. Tveimur vikum eftir að hún byrjaði að finna fyrir einkennum var hún komin í meðferð sem lauk í lok júlí.

„Ég var í Bandaríkjunum þegar Obama var kjörinn forseti. Það var mikil upplifun og jákvæð. Þessi var ekki jafn jákvæð, eiginlega súrrealísk. Við trúðum ekki að þetta væri að gerast, vonuðum að það væru bara komnar tölur úr ríkjum sem styddu Trump.

Þetta var eiginlega táknræn byrjun á veikindunum. Fyrst hrundi heimurinn þegar Trump var kjörinn forseti, svo þegar ég greindist með krabbameinið.“

Þannig hljómar inngangurinn að sjúkrasögu Hildar Karenar sem hún segir í viðtali í Austurglugganum sem kemur út í dag. Hún hafði farið til Bandaríkjanna ásamt vini sínum til að vera viðstödd sögulega stund þegar fyrsta konan yrði forseti Bandaríkjanna.

Hélt ég væri að fá flensu

Það var hins vegar í ferðinni sem Hildur byrjaði að finna fyrir einkennum bráðahvítblæðis. „Kosningarnar voru á þriðjudegi og ég kom heim á laugardegi. Lífið var ömurlegt, Trump var að verða forseti og ég að leggjast í rúmið með hita og vesen. Ég hélt ég væri að fá flensu eða streptókokkasýkingu.

Viku síðar síðar fór ég á Læknavaktina. Þá var ég búin að leita að einkennunum á netinu og segja við nokkra vini að ég væri örugglega með bráðahvítblæði. Ég ákvað að þylja upp þessi sérstöku einkenni fyrir lækninn. Hann gaf mér kåvepenin við streptókokkasýkingu og sagði mér að fara í blóðprufu eftir helgina.

Kåvepenin virkar ekki á bráðahvítblæði, það er fullreynt. Aðfaranótt sunnudags var ég rosalega slæm. Inga Hrefna, systir mín, var á línunni frá Washington og eins töluðum við við frænku mína sem er hjúkrunarfræðingur. Þær ráðlögðu mér að fara á bráðamóttökuna.

Ég er ekki týpan sem vill láta hafa mikið fyrir sér og fannst óþarfa vesen að ætla að taka tíma frá veikara fólki á bráðamóttökunni en úr varð að vinkona mín fór með mér.

Strax í fyrstu blóðprufu kemur í ljós óeðlilegt magn hvítra blóðkorna. Ég var strax sett í einangrun og á mánudagsmorgni er ég komin inn á deild 11G á Landspítalanum, blóðlækningadeild, og byrja í meðferð, einum og hálfum sólarhring eftir að ég kom á bráðamóttökuna.“

Stefndi heim í brúðkaupsveislu

Við tók ströng meðferð, fyrst hér heima en síðan í Svíþjóð þar sem Hildur Karen gekkst undir beinmergjarskipti í byrjun maí í fyrra. Hún dvaldi í Stokkhólmi yfir sumarið en kom heim í lok júlí.

„Ég var úti frá lokum apríl til loka júlí. Maður á að vera í eftirliti í 100 daga frá stofnfrumugjöf en ég var óþolandi sjúklingurinn því ég var búin að lofa mér í að stýra brúðkaupsveislu hjá góðum vinum í lok júlí og þurfti að komast þangað.

Mér var hleypt út eftir 79 daga. Þá var ég tilbúin. Líkaminn höndlaði meðferðina miklu betur en mér var sagt. Ég náði markmiðinu og brúðkaupsveislan var stórkostleg.“

Gerir meira af því skemmtilega

Hildur segir það hafa breytt viðhorfi hennar til lífsins að hafa veikst. Hún er nú laus við meinið en undir eftirliti. Bati hennar hefur verið skjótari en áætlað var.

„Ég hef alltaf verið góð í að fagna öllum áföngum og held bæði upp á afmæli og skírnarafmæli. Nú á ég beinmergsafmæli líka. Hið fyrsta er fram undan og ég er búin að panta mér ferð til London. Nú hef ég fleiri tilefni til að halda góð partý.

Að hafa gengið í gegnum þetta styrkir mann í að njóta hverrar stundar. Mottóið mitt er að gera meira af því sem er skemmtilegt og minna af því sem er leiðinlegt. Það hljómar fáránlega en þegar maður hugsar til baka er margt gott við að hafa greinst.

Maður lærir mikið og breytir lífsviðhorfinu. Maður fer að horfa á samhengi hlutanna, eyðir minni orku í þá hluti sem skipta ekki máli. Maður hugsar til dæmis minna um almenningsálitið.

Ég er heppin að allt gekk vel. Ég var lítið veik, bara slöpp, lá ekki fyrir eins og margir gera. Ég hef alltaf verið glöð og jákvæð, ég held þetta hafi verið sambland af hugarfari og heppni.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.