„Norðfirðingar eru svolítið hreyfingabrjálaðir”

Jóhann Tryggvason hefur verið virkur í flestu því sem tengist íþrótta- og æskulýðsstarfi á Norðfirði um langa hríð. Að austan á N4 tók hann tali fyrir stuttu.Jóhann segir sinn íþróttagrunn liggja kringum skíðin, en hann hefur bæði haft aðkomu að því starfi hjá félaginu sem og öðrum greinum, líka sem foreldri.

Hugsjónafólk lykilinn að velgengni
Aðspurður að því hvað skapi íþróttasamfélag líkt og það sem er á Norðfirði segir Jóhann; „Norðfirðingar eru svolítið hreyfingabrjálaðir, en ég held að það sé bara gott. Ég tel að það þurfi þó fyrst og fremst hugsjónafólk. Það kemur kannski einhver á staðinn sem hefur ótrúlega mikinn áhuga á blaki og byggir það upp. Það er ekki hægt að reka íþróttagrein án þess að það sé hugsjónafólk á bak við það.”

Íþróttir eru besta forvörnin
Jóhann var æskulýðs og forvarnarfulltrúi á staðnum um tíma. „Þegar kannanir voru skoðaðar kom í ljós að við vorum við með mjög hátt hlutfall barna og unglinga sem tóku þátt í skipulögðu starfi á vegum íþróttafélaganna, þar vorum við í hærri kantinum miðað við önnur sveitarfélög. Það er mjög öflug forvörn að mínu viti. Ennþá eru unglingarnir á staðnum það virkir í íþróttastarfi og öllu mögulegu að við erum með lítil unglingavandamál.”

Landsmót í sumar
Næsta sumar verður landsmót 50 ára og eldri haldið á Norðfirði. „Þar verða eldri unglingar,” segir Jóhann og brosir. „Það er búið að stefna að þessu hjá okkur nokkuð lengi en nú er að koma að þessu og eins gott að menn fari að girða sig í brók og gera klárt til þess að taka á móti þessu fólki og hafa þetta skemmtilegt, þetta er bara spennandi.”

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar