Nesskóli sigraði í Fjármálaleiknum

Tíundi bekkur Nesskóla fór með sigur af hólmi í Fjármálaleiknum 2019, spurningakeppni í fjármálalæsi. Umsjónarkennari segir bekkinn hafa verið samheldinn í að vanda sig við úrlausn spurninganna.

Hver nemandi í bekknum þurfti að svara 60 fjölbreyttum krossaspurningum um fjármál. „Stundum þurfti að reikna, í öðrum að vita um hvað tryggingar snúast, þekkja réttindi og skyldur á vinnumarkaði eða kunna ýmislegt fjármálatengt svo sem gengissveiflur og verðlagsþróun,“ segir Sigrún Júlía Geirsdóttir, umsjónarkennari bekkjarins.

Mest var hægt að ná 8000 stigum og voru flestir nemendur bekkjarins með fullt hús stiga. Árangurinn náðist með mikilli samheldni og hvatningu.

„Þau voru tilbúin að einhenda sér í verkefnið og vanda sig frekar en flýta sér. Það skipti máli að ýta ekki strax á hinn augljósa svarmöguleika heldur hugsa smá eða reikna,“ segir Sigrún Júlía.

Alls tóku þrjátíu skólar á landsvísu þátt í leiknum að þessu sinni með samtals um 500 nemendur. Að baki leiknum eru Samtök fjármálafyrirtækja í tilefni af alþjóðlegri fjármálalæsisviku.

Vilhjálmur G. Pálsson, framkvæmdastjóri Sparisjóðs Austurlands, afhenti bekknum sigurlaun í morgun auk þess sem tveir nemendur úr bekknum, Ester Rún Jónsdóttir og Freysteinn Bjarnason, fara í maí út til Brussel þar sem þau taka þátt í úrslitum Evrópukeppninnar í fjármálalæsi.

„Þegar ljóst var að við hefðum sigrað þurfti ég að velja tvo nemendur til að fara með mér til Brussel. Það var ekki auðvelt en ég lagði fyrir þau snúið próf, án allra krossamöguleika, og þau tvö hæstu fara með mér.“

Mynd: Eysteinn Þór Kristinsson


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.