Natalia Ýr mun kenna börnum í Ghana stærðfræði í sumar

„Er í lagi að þú hringir eftir svona tíu mínútur, er að bíða eftir að ein kind beri hjá mér,” sagði Natalia Ýr Jóhannsdóttir við blaðamann í morgun, varðandi umsamið símtal vegna ferðar hennar til Ghana sem hefst á föstudaginn.Natalia Ýr er 23 ára gömul, fædd í Póllandi þar sem hún bjó þar til hún var 12 ára gömul þegar hún flutti til Íslands og settist að með fjölskyldu sinni í Jökuldalnum. Í dag býr hún á Egilsstöðum en fjölskyldan rekur sauðfjárbú í Hróarstungu og er það eins og máltækið segir, hennar ær og kýr. 

„Ég er aldrei jafn mikið ég sjálf og þegar ég er með kindunum mínum,” segir Natalia Ýr, sem þó er á leið til Ghana í Afríku á föstudaginn til þess að kenna stærðfræði í sumarbúðum fyrir börn. 

Í vikunni lauk Natalia Ýr öllum áföngum til Bed-prófs við Kennaraháskóla Íslands og á aðeins ritgerðina eftir til þess að útskrifast sem grunnskólakennari. Hún starfar sem leiðbeinandi í Brúarásskóla þar sem hún kennir elsku bekkjunum stærðfræði og öllum nemendum skólans upplýsingatækni.

Var aðeins fimm ára þegar hún ákvað að verða kennari
„Vinkona mín hefur farið til Afríku og það hefur einnig lengi verið minn draumur. Ég sá svo auglýsingu frá Kilroy Foundation. Þar var hægt að sækja um styrk að andvirði 200 þúsund krónum, ég sótti um og fékk hann,” segir Natalia Ýr, en sú upphæð dugði fyrir flugmiðanum til Ghana, þar sem hún mun dvelja í sumarbúðum á vegum Village by Village. 

„Vanalega dvelja einstaklingar aðeins þrjár vikur í sumarbúðunum, en ég sóttist eftir því að vera í sex vikur, þar sem ég ætla að nýta dvölina til þess að safna efni í lokaritgerðina mína, þar sem ég mun bera saman skólaumhverfi í Ghana og hér á Íslandi,” segir Natalia Ýr, sem aðeins var fimm ára þegar hún ákvað að verða kennari í framtíðinni. 

„Auðvitað hef ég farið fram og til baka með það gegnum tíðina eins og eðlilegt er. Maður er samt alltaf með þetta „ungmennaviskubit” gagnvart veröldinni sem við erum að skapa og ég hugsaði með mér að ef það er eitthvað hægt að gera, þá er það gegnum fræðslu. Það er ekki nóg að veita pening, eins og í sjálfboðastarf, ef fólk kann ekki að nýta hann og verður áfram á sama stað í lífinu. Mig lagnar til þess að breyta viðhorfi fólks og hafa þannig áhrif til góðs.”

Hefur ekki hugmynd um aðstæður ytra
Natalia Ýr segist ekki hafa hugmynd um við hverju hún á að búast þegar út er komið. „Ég er að fara ein og það eru allir hræddir um mig. Það var ég alls ekki en finn ég er orðin það núna, fyrst allir aðrir eru það. Ég veit ekki hvað veldur því að fólk óttast um mig, líklega bara þessi sjúki veruleiki að hægt er að ná í fólk allan sólarhringinn hérna, en það geta alveg komið tímabil í Gana þar sem ég verð ekki í sambandi. Svo held ég að fólk sé líka hrætt við menningarmuninn, þó svo árið sé 2019.

Ég veit heldur alls ekki hvað bíður mín. Ég var beðin um að svara því af hverju ég vildi búa í moldarkofa í þrjár vikur. Það er einfaldlega vegna þess að mig langar að vera á svæðinu, með puttan á púlsinum. Ég vildi ekki samtök þar sem ég eyði nokkrum tímum með börnum og leggst svo í lúxus rummið mitt á hóteli um kvöldin. Ég vil fá upplifunina alla eins og hún er og fá að finna fyrir menningunni alla leið. Á sama tíma var mér sagt að koma með rafmagnssnúru, ég veit því ekkert og það er bara spennandi,” segir Natalia Ýr.

Var Nataliu Ýr gert að safna 200 þúsund krónum til Village by Village, sem nýta á til þess að byggja upp sumarbúðirnar sem og nýjan skóla. Hún átti afmæli í janúar og í stað gjafa bað hún um pening í verkefnið. Hún á aðeins 40 þúsund krónur til að ná settu marki og tekur hún glöð móti framlögum hér.

Hægt verður að fylgjast með ævintýrinu á Instagram og Snapchat undir notandanafninu: ipghana19

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.